Eins og kunnugt er er Trump efins um tilganginn með NATÓ og hann hefur löngum þótt ansi vinsamlegur í garð Vladímír Pútíns, Rússlandsforseta, sem sendi nýlega herlið inn í Úkraínu.
Reiknað er með að ríkisstjórnir Finnlands og Svíþjóðar taki ákvörðun nú í maí um hvort sótt verði um aðild að NATÓ. Almennt er talið að ríkjunum verði tekið opnum örmum af þeim 30 ríkjum sem nú mynda bandalagið. En ekkert er öruggt í þessum efnum og telja sumir að Trump geti orðið fyrirstaða.
En hvernig þá? Hann er ekki lengur forseti og hvernig getur hann þá haft áhrif á málið?
Til að nýtt ríki sé tekið inn í NATÓ þurfa öll aðildarríkin að samþykkja umsókn þess. Í Bandaríkjunum þurfa tveir þriðju allra öldungadeildarþingmanna að samþykkja slíka umsókn. Þar eru valdahlutföllin hnífjöfn því báðir flokkar, Demókratar og Repúblikanar, hafa 50 þingmenn. Demókratar hafa þó meirihluta því Kamala Harris, varaforseti, fer með oddaatkvæði ef atkvæði falla jafnt í atkvæðagreiðslum í deildinni.
Opinberlega hafa þingmenn úr báðum flokkum lýst yfir stuðningi við aðild Finna og Svía. En það er engin trygging fyrir að ríkin fái aðild. Ástæðan er að Trump hefur góða stjórn á Repúblikanaflokknum og því eru fleiri efasemdaraddir uppi innan hans um NATÓ en nokkru sinni áður.
Í Bandaríkjunum hafa þær áhyggjur verið viðraðar að Trump, sem er talinn ætla sér í forsetaframboð 2024, muni leggjast gegn aðild Finna og Svía opinberlega. Hann muni hugsanlega færa þau rök fyrir þessu að óþarfi sé að styggja ráðamenn í Moskvu.
Aaron Blake, sem er þekktur greinandi hjá Washington Post, segir í greiningu á málinu að umsóknir frá Finnlandi og Svíþjóð um aðild að NATÓ geti valdið ólgu innan Repúblikanaflokksins. Hann leggur áherslu á að ekki sé enn vitað hvort Trump muni reyna að fá flokkssystkini sín til að hafna aðild ríkjanna en ef hann geri það geti það valdið óróleika innan flokksins.
Þegar öldungadeildin greiddi atkvæði um stuðning sinn við NATÓ árið 2018, þegar Trump sótti leiðtogafund NATÓ í Brussel, féllu atkvæðin 97-2 NATÓ í vil.
Í apríl greiddi fulltrúadeildin atkvæði um stuðning Bandaríkjanna við NATÓ í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu. Þá greiddu 63 þingmenn Repúblikana, rúmlega 30% þingmanna flokksins, atkvæði gegn ályktuninni sem kvað á um stuðning við NATÓ og „lýðræðisgildi bandalagsins“. Meðal þeirra röksemda sem sumir Repúblikananna settu fram fyrir andstöðu sinni voru að NATÓ hefði ögrað Pútín og orðið til þess að Rússar réðust inn í Úkraínu, að Bandaríkin beri ekki ábyrgð á öryggi Evrópu og að Rússland sé ekki verra en Bandaríkin.