En hvað varðar almenningsálitið þá eru tæplega tveir þriðju Bandaríkjamanna líklegri til að styðja stjórnmálamenn, sem bjóða sig fram í þingkosningunum í nóvember, sem styðja rétt kvenna til þungunarrofs. Sky News skýrir frá þessu.
Fram kemur að 988 kjósendur hafi verið spurðir út í þetta. 41% þeirra sögðust telja að Bandaríkin verði verra land til að búa í ef Hæstiréttur snýr dómnum frá 1973 við.
Eftir að fjölmiðlar birtu fréttir af drögunum að niðurstöðu Hæstaréttar í málinu hitnaði mjög í kolunum hjá fylgjendum þungunarrofs og hjá þeim sem vilja banna þungunarrof. Drögin voru skrifuð af Samuel Alito, dómara, og í þeim segir að niðurstaðan frá 1973 hafi verið „hræðilega röng frá upphafi“.
Joe Biden, forseti, sagði í gær að þessi væntanlega niðurstaða Hæstaréttar væri „róttæk“ og Demókratar á bandaríska þinginu og þingum einstakra ríkja hófust strax handa við að undirbúa viðbrögð til að verja rétt kvenna til þungunarrofs en hann hafa þær haft í tæpa hálfa öld.
Biden sagði að réttur kvenna til að taka ákvörðun sé grundvallarréttur. Niðurstaða Hæstaréttar frá 1973 hafi verið lög í tæpa hálfa öld og grundvallarsanngirni og lagalegt jafnvægi krefjist þess að niðurstöðunni verði ekki snúið við.
Kamala Harris, varaforseti, hafði ekki mörg orð um málið og sagði aðeins: „Hvernig dirfast þeir?“
Nokkrum klukkustundum eftir að skýrt var frá málinu var birt niðurstaða úr könnun Reuters/Ipsos um málið. Bendir hún til að það geti haft pólitískar afleiðingar. Niðurstaðan bendir til að 63% svarenda muni frekar styðja frambjóðendur sem styðja rétt kvenna til þungunarrofs í kosningunum í nóvember. Hjá Demókrötum er hlutfallið 78% en 49% hjá Repúblikönum. Kosningarnar í nóvember munu skera úr um hvor flokkurinn verður í meirihluta á þingi næstu tvö árin.
Hvað varðar afstöðu Bandaríkjamanna til þungunarrofs sögðu 52% svarenda að það eigi að vera löglegt í öllum eða nær öllum tilfellum. 40% sögðu að það eigi að vera ólöglegt í öllum eða nær öllum tilfellum.