Eva Lúna Baldursdóttir, lögfræðingur og varaborgarfulltrúi, segir borgarfulltrúa á alltof háum launum miðað við vinnuframlag þeirra. Hún vekur athygli á þessu á Facebook.
„Ég var varaborgarfulltrúi í 8 ár – og fannst alltaf stórkostlega merkilegt hvað borgarfulltrúar voru með í laun fyrir þægilega vinnu. Einhver grunnlaun og svo allskonar aukasposlur fyrir stjórnarsetur. Svo voru þeir oft heima á vinnutíma og mæting ekki eins og í hefðbundna vinnu.“
Eva segir að samkvæmt hennar reynslu vinni borgarfulltrúar flestir litla handavinnu heldur fái þeir bara upplýsingarnar matreiddar ofan í sig.
„Borgarfulltrúar vinna í raun enga handavinnu – enga grunnvinnu. Sumir auðvitað en fáir skv. minni reynslu. Þeir lesa jú. Mögulega ekki allir.
Öll gögn eru unnin ofan í fólk af sérfræðingum og þeir sitja bara – tala – og taka ákvarðanir.
Það virtist einhvers konar þegjandi samkomulag að tala aldrei um hvað þetta er í raun og veru nice innivinna.“
Eva deilir færslunni í kjölfar fréttar Vísis þar sem greint var frá því að borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks hafi ekki mætt á borgarstjórnarfund síðan í febrúar, en þar voru laun Hildar rakin sem eru um 1,4 milljónir á mánuði.
Grunnlaun borgarfulltrúa eru í dag um 892 þúsund krónur, en 624 þúsund hjá varaborgarfulltrúum. Ofan á þessi. laun bætast svo aukagreiðslur eins og 64 þúsund krónur í starfskostnað, 25 prósent álag á laun ef borgarfulltrúi gegnir formennsku í fagráði – eða borgarstjórnarflokki eða ef hann situr í þremur eða fleiri fastanefndum. Borgarfulltrúar í borgarráði eiga rétt á 25 prósenta álagi á laun, kjörinn varamaður á rétt á 6 prósent álagi og formaður borgarráðs rétt á 40 prósent álagi.
Til að mynda eru þó nokkrir borgarfulltrúar að fá 25 prósent álagið tvisvar, svo sem þegar þeir sitja bæði í borgarráði sem og í þremur eða fleiri nefndum, og eru þá með um 1,4 milljónir í mánaðarlaun.
Fjórir varaborgarfulltrúar ná líka 25 prósenta álaginu og eru þá með 911 þúsund á mánuði.