Fyrsta flugferð Delta á þessu ári með ameríska ferðamenn lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun. Til að svara miklum áhuga á ferðum vestanhafs til Íslands notar Delta frá fyrsta degi 225 sæta Boeing-767 breiðþotu í flugferðunum frá New York. Í lok maí hefst flug félagsins frá Minneapolis/St. Paul og verður flogið daglega frá báðum borgum í allt sumar.
Þetta er ellefta árið sem Delta flýgur á milli Íslands og Bandaríkjanna. Delta flýgur frá Keflavíkurflugvelli að morgni dags, sem þýðir að vegna tímamismunar er lent í Bandaríkjunum um hádegisbil að staðartíma. Það þýðir að farþegar frá Íslandi geta nýtt sér fjölda tenginga Delta samdægurs frá alþjóðaflugvöllunum tveimur til áfangastaða í Norður-Ameríku og Suður-Ameríku.