fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Flumbrugangur við bankasölu

Eyjan
Sunnudaginn 1. maí 2022 17:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um fátt hefur meira verið rætt undanfarnar vikur en söluna á 22,5% hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka og að bera í bakkafullann lækinn að reifa öll þau sjónarmið sem komið hafa fram í þeirri umræðu. Eitt og annað er gagnrýnivert í útboðinu, nefnt hefur verið að þóknun til ráðgjafa hafi verið í hærra lagi og athygli vekur að ekki voru gerðar kröfur um lágmarksfjárhæð tilboða.

Í ljósi þess síðarnefnda er eðlilegt að spyrja hvort ekki hefði verið skynsamlegra að efna til opins útboðs um sölu á hlutnum — en flestir eru nefnilega sammála um að frumútboðið í fyrra hafi heppnast sérlega vel. Að því loknu voru hluthafar næstum 25 þúsund sem sýndi að allur almenningur hafði á nýjan leik öðlast trú á fjárfestingu í hlutabréfum.

Æsingurinn ber árangur

Þeir sem hæst láta í umræðunni um söluna á 22,5% hlutnum eru samt þeir sem alla tíð hafa amast við einkavæðingu og ýmsar meginröksemdir stjórnarandstöðunnar gegn sölunni halda ekki vatni, eins og til að mynda að einhverjir í hópi kaupenda hafi „tengst bankahruninu“ — þeim hinum sömu er líka frjálst að kaupa hlutabréf í bankanum í almennum markaði.

Hvað sem því líður þá er þetta mál vel til þess fallið að þyrla upp pólitísku moldviðri og stjórnarandstöðuþingmenn fengu sönnun þess að æsingurinn bæri árangur þegar Fréttablaðið birti könnun á miðvikudaginn var þar sem fram kom að stjórnarflokkarnir mældust samtals með aðeins 39,9% fylgi og fengju 26 menn kjörna — þar af var fylgistapið mest hjá Sjálfstæðisflokki sem fengi innan við 18 af hundraði atkvæða yrði gengið til alþingiskosninga nú. Hinir stjórnarflokkarnir mældust einnig með umtalsvert lægra fylgi en þeir hlutu í kosningunum síðastliðið haust.

Sjálfstæðismenn urðu að vonum felmtri slegnir við tíðindin en ekki tók betra við þegar á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir var greint frá því að einungis 19,4% aðspurðra hygðust kjósa Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum sem fram fara eftir aðeins hálfan mánuð (raunar er furðulegt til þess að hugsa að svo stutt sé til kosninga því baráttan er varla hafin). Könnunin sýndi ennfremur að vinstrimeirihlutinn í borginni heldur velli — þrátt fyrir öll hneykslismálin þar undanfarin hálfan annan áratug og gríðarlega óánægju borgarbúa — sem raunar var orðin svo mikil að vinstrimeirihlutinn hætti að taka þátt í þjónustukönnunum sveitarfélaga til að fegra ásýndina. Og þrátt fyrir allt svifrykið, biðlistana, braggann, húsnæðisskortinn, umferðaröngþveitið, myglaða skólahúsnæðið og þannig mætti áfram telja — þrátt fyrir allt þetta halda vinstrimenn velli. Það er ekki nema von að heyrst hafi af alvarlegum sjálfskoðunarfundum í Valhöll.

Svo ég víki aftur að landsmálunum þá ætla ég að spá því hér að stjórnin tóri áfram — jafnvel út kjörtímabilið. Þrátt fyrir allt hefur enginn stjórnarflokkanna hag af því að ganga til alþingiskosninga í bráð enda er meira að segja viðskipta- og menningarmálaráðherra hætt að setja fram eftirárskýringar um bankasöluna. Ýmsir telja þó stjórnarslit yfirvofandi og einn gamalgróinn sjálfstæðismaður nefndi við mig á dögunum að líklega væri orðið tímabært fyrir Sjálfstæðisflokkinn að taka sér frí frá ríkisstjórn — flokkurinn þarfnaðist tilfinnanlega hugmyndafræðilegrar endnýjunar. Hann væri trénaður og skorti lífræn tengsl við fólk og fyrirtæki sem fyrr á árum hefðu verið hans aðalsmerki. Flokkurinn sem eitt sinn hefði barist raunverulega fyrir auknu frelsi borgaranna tæki nú virkan þátt í að hækka skatta og þenja út ríkisbáknið — nú seinast með fjölgun ráðuneyta. Og þessi flokkur sem eitt sinn hefði verið kjölfesta íslenskra stjórnmála og haldið um áratugaskeið meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur væri meira að segja þar kominn undir fimmtungsfylgi.

Frekari einkavæðing í uppnámi

Allt um það. Ekkert nágrannaríkja okkar býr við viðlíka ríkisrekstur í fjármálaþjónustu og hér er við lýði. Hugur segir mér að margir þeirra sem mótmæla bankasölu vilji að fjármálaþjónusta verði alfarið á hendi ríkissjóðs og við hverfum þá um leið aftur til þess tíma þegar ríkisreknu bankakerfi var beitt kinnroðalaust í hagsmunagæslu fyrir þá sem velviljaðir voru flokkunum. Slíkt var vitaskuld í andstöðu við markaðsbúskap og frjálsa samkeppni. Að ekki sé minnst á innbyggða óhagkvæmni ríkisrekstrar sem allir þekkja. Íslendingar stóðu að þessu leyti langt að baki nágrannalöndunum um áratugaskeið.

Líklegt má teljast að flumbrugangur fjármálaráðherra í kringum bankasöluna nú hafi gert úti um áframhaldandi sölu ríkiseigna í bráð en eftir situr ríkissjóður með 42,5% hlut í bankanum. Þetta gerist á sama tíma og íslenskur hlutabréfamarkaður er í leið í flokk nýmarkaðsríkja sem mun greiða fyrir erlendri fjárfestingu hér á landi. Ríkissjóður mun alltént ekki njóta góðs af því við frekari sölu ríkiseigna í bráð enda óhætt að fullyrða að engin pólitísk sátt mun nást um þau mál.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
EyjanFastir pennar
08.12.2024

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
28.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?