Réttar tvær vikur eru í dag til sveitarstjórnarkosninga. Fara þá fram kosningar í 67 sveitarfélögum landsins. Sem fyrr munu þó augu flestra beinast að kosningunum í Reykjavík.
Nokkur tíðindi hafa undanfarið borist úr borgarstjórnarpólitíkinni og þá helst könnun Fréttablaðsins sem birtist rétt fyrir helgi. Mældist Sjálfstæðisflokkurinn, sem hlaut í kosningunum 2018 30,8% fylgi þá með undir 20%. Má þar vafalaust nefna vandræði formanns flokksins með Bankasýslumálið sem eina ástæðu fyrir dræmu gengi flokksins í könnunum um allt land. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna gerði þetta einmitt að umræðuefni sínu í viðtali við Stöð 2 fyrir helgi þar sem hún sagði það „óþolandi,“ hvað málið tæki mikið pláss í umræðunni og að hún saknaði þess að geta hafið sína kosningabaráttu.
Á meðan virðast Framsókn, hins vegar, vera á fljúgandi siglingu og mældust með 12,4% í þessari sömu Fréttablaðskönnun. Vakti það sérstaka athygli að 13% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast ætla nú að kjósa Framsókn. Má þannig áætla að fjögur prósentustig af þeim tólf sem Framsókn mælist með séu komin frá Sjálfstæðisflokknum. Það er þó aðeins þriðjungur fylgis Framsóknar í könnuninni. Fylgi Framsóknar virðist þannig vera að koma víða að.
Eitthvað virðist sigling Framsóknar koma fulltrúum meirihlutaflokkana í opna skjöldu, en Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, gerir hana að umtalsefni sínu á Facebook í morgun. Rifjar hann upp það þegar Viðreisn bauð fram í fyrsta skipti í borginni og nefnir að þá kynntu þau stefnumál sín á 10-20 blaðsíðum og segir að flokksmenn höfðu verðmetið helstu loforð þeirra.
„Þannig finnst mér að maður eigi að gera þetta óháð því hvar í pólitík við stöndum. Við sem ætlum okkur að stjórna sveitarfélagi eigum að vera tilbúin að ráðast í það verkefni frá fyrsta degi,“ segir Pawel og bætir við: „En svo er auðvitað líka hægt að lofa að „gera Reykjavík skemmtilegri.““
„Ég fagna því að öfgalaust fólk bjóði fram krafta sína í sveitarstjórnum. Og hlakka til að vinna með því. En innihaldið mætti vera meira,“ segir Pawel jafnframt.
Pawel bætir svo við undir færsluna að hann hafi leitað að ítarlegri stefnu Framsóknar en lítið fundið.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata blandar sér svo í umræðurnar: „Ég verð nú að taka smá undir þetta sko,“ segir hún. „Það þurfa ekki allir að gera eins ítarlegar stefnur og Píratar heldur, en það er svona frekar fáránlegt að taka engar afstöður í stórum málum sem er augljóslega ekki hægt að bæði halda og sleppa.“
Færslu Pawels má sjá hér að neðan.