Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá Krónunni með það að markmiði að skerpa á stefnu og innra skipulagi félagsins. Tveir nýir forstöðumenn bætast í hóp stjórnenda, þeir Bjarni F. Jóhannesson sem tekur við stöðu forstöðumanns innkaupa og vöruflokkastýringar og Jón Ingi Einarsson sem tekur við sem forstöðumaður vörustýringar.
Bjarni Friðrik Jóhannesson hefur starfað hjá Krónunni og tengdum félögum frá árinu 2006. Hann var deildarstjóri innkaupadeildar og vöruflokkastýringar frá janúar 2021, framkvæmdastjóri vörugreiningardeildar frá 2019 og rekstrarstjóri Nóatúns frá 2006. Bjarni er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.
Jón Ingi Einarsson hefur starfað hjá Krónunni með hléi frá árinu 2004. Hann starfaði áður sem sérfræðingur innan innkaupadeildar Krónunnar eða frá september 2020, framkvæmdastjóri Ekrunnar frá 2014, sölustjóri sama fyrirtækis frá 2007 og vöruflokkastjóri hjá Kaupási, forvera Krónunnar, frá 2004. Hann er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundar MBA nám við Háskóla Íslands samhliða starfi.
Jafnframt tekur Guðrún Aðalsteinsdóttir við nýju sviði stafrænnar þróunar og umbótaverkefna innan Krónunnar en hún var áður forstöðumaður innkaupa og vörustýringar. Stafræn þekking er sífellt að verða mikilvægari í verslunarrekstri, þar liggja gríðarleg tækifæri til vaxtar, hagræðingar og bættrar þjónustu við viðskiptavini en nefna má að Krónan býður upp á netverslun og Skannað og skundað sjálfsafgreiðslulausn í gegnum Snjallverslun, þá fyrstu sinnar tegundar á Íslandi.
Sigurður Gunnar Markússon, sem áður var forstöðumaður viðskiptaþróunar, tekur við sem forstöðumaður þróunar og uppbyggingar verslana, en á næstunni munu þrjár nýjar Krónuverslanir opna í Borgartúni, Skeifunni og á Akureyri.
„Við erum sífellt að skerpa á okkar stefnu, hlutverkum og markmiðum, enda keppumst við alla daga við að koma réttu vöruúrvali í hendur neytenda á eins ódýran hátt og mögulegt er. Bjarni og Jón Ingi eru öllum hnútum kunnugir innan Krónunnar og mun reynsla þeirra og þekking nýtast vel innan okkar sterka stjórnendateymis til að ná fram enn meiri hagkvæmni og skilvirkni í rekstri Krónunnar,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.