Nú stendur yfir opinn fundur fjárlaganefndar þar sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, situr fyrir svörum vegna sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka í lokuðu útboði, en framkvæmdin hefur verið harðlega gagnrýnt undanfarnar vikur.
Fyrst til að spyrja var þingmaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir. Hún sýndi þar rökstudda matið sem Bankasýslan afhenti Bjarna kvöldið sem útboðið fór fram. Um er að ræða einblöðung og furðaði Kristrún sig á því að matið væri svona lítið að umfangi og beindi þeirri spurningu til Bjarna hvernig hann hafi getað axlað sína ábyrgð á sölunni, byggt á einblöðungi, með ákvörðun sem tók hann aðeins tvær klukkustundir að taka.
„Útboðinu lauk klukkan 21:30 þann 22. mars sl. Fyrir lok dags færðu þetta hérna rökstudda mat frá Bankasýslunni þessi einblöðungur er rökstudda matið. Þar stendur að ca. 150-200 tilboð liggi fyrir, verðið sé 117 og skerða þurfi tilboðið eftir sex almennum skilyrðum þar sem umfram eftirspurn sé. Fyrir miðnætti ertu búinn að samþykkja tilboðin með þessari málsgrein hér. Ríkið var að selja sig undir meirihluta eigu í Íslandsbanka með þessari sölu og þar með missa ítökin í bankanum í mjög stóru kerfislega mikilvægu fyrirtæki og þú tókst ákvörðun um að byggt á einblöðungi sem þú rýndir á innan við tveimur tímum,“ sagði Kristrún í inngangi sem hún fór með í aðdraganda þeirra spurninga sem hún lagði ráðherra að svara.
Bjarni rakti að þó að tveir tímar virðist vera skammur tími og þó að rökstudda matið sé vissulega stutt þá megi ekki gleyma því að framkvæmd útboðsins hafði verið vel undirbúin og þaulrædd á þingi, fundum, nefndum og hvað eina.
„Þess vegna á það ekki að koma neinum á óvart að þetta gerist í mjög þröngum tímaramma að mjög vel athuguðu máli og ekkert við það að athuga að það taki ekki marga klukkutíma að komast að niðurstöðu þegar ákvörðunin í ráðuneytinu er á þeim tímapunkti tiltölulega einföld. Hún snýr að því að samþykkja umfangið, það er að segja magn bréfanna sem er verið að selja, og hún snýr að því að samþykkja verðið, og verðið hafði auðvitað verið töluvert rætt og ég tók eftir því að það var rætt hér í nefndinni á sínum tíma…. “
Lengra komst Bjarni ekki því Kristrún beindi þeim orðum til fundarstjóra, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, að þar sem um knappan tíma sé að ræða fyrir spurningar að hún geri ráðherra að svara beint spurningunum.
„Ef ég mætti fá að halda orðinu,“ sagði Bjarni þá. „Ef ég mætti fá að halda orðinu formaður.“
Bjarkey tók þá fram að um samræður væri að ræða og Kristrún bætti því aftur við að um knappan tíma væri að ræða.
Bjarni: „Já en það er spurt að því, og það er látið liggja að því, að í ráðuneytinu hafi menn ekki verið að vanda sig vegna þess að þeir tóku ákvörðun í tiltölulega skömmum tímaramma…“
Kristrún: „Já en svaraðu spurningunni…..“
Bjarni: „En allt þetta var fyrirséð….“
Kristrún: „Leitaðir þú ráðgjafar í ráðuneytinu..“
Þá var ljóst að Bjarna var að verða heitt í hamsi. „Ég ferð að fá að bregðast við, ég er ekki kominn hingað til að rífast við einstaka nefndarmenn….“
Kristrún greip þá fram í: „Nei, þú ert kominn hingað til að svara spurningum…“
Bjarni: „Ég ætla ekki að láta grípa fram í fyrir mér heldur! Ég óska eftir því að fundinum verði stýrt..“
Kristrún: „Formaður, ég óska eftir því að ráðherra svari spurningum.“
Þá reyndi Bjarkey að koma reglu aftur á fundinn og sagði mikilvægt að Bjarni hefði ekki of langan aðdraganda að svörum sínum.
Bjarni: „Já en það var inngangur að þessum spurningum og með sama hætti ætla ég að fá að vera með inngang að mínum svörum. Og þegar látið er að því liggja að menn hafi ekki verið að vanda sig vegna þess að það hafi tekið svo skamman tíma í ráðuneytinu þetta kvöld þá er algjörlega verið að horfa framhjá margra mánaða undirbúningi sem er auðvitað grundvöllur þess að hægt er að komast að niðurstöðu og ráðherra axlar ábyrgð samkvæmt lögum með því undirbúa ákvörðunartökuna vel. Og það var okkar hlutverk þetta kvöld að taka afstöðu til umfangsins, það er magn bréfanna sem var selt, ganga úr skugga að bankasýslan ætlaði að úthluta í samræmi við viðmiðin sem bankasýslan lagði upp með og það kemur algjörlega skýrt fram í rökstudda matinu hvaða aðferðafræði verði beitt við úthlutun. Þar er vísað til þeirra viðmiða sem við höfum lagt Bankasýslunni í té og viðtekinna venja á hlutabréfamarkaði og við gátum verið sátt við það.“
Bjarni rakti að sú ákvörðun sem taka þurfti umrætt kvöld hafi aðeins verið um þessa þætti. Allt annað hafði verið rætt í umfangsmiklum aðdragandanum þar sem vandað var til verka. Eins hafi verið fundað í ráðuneytinu þetta kvöld áður en ákvörðun var tekin.
Kristrún spurði þá hvort að til væri skrá yfir þann fund. Bjarni fékk þá skrifstofustjóranum Sigurði H. Helgasyni að svara. Kristrún kvartaði undan því við Bjarkey og minnti á að það væri ráðherra sem sæti fyrir svörum, en Bjarkey sagði að honum færi heimilt að fá ráðgjöfum sínum að svara.