„Einhver kynni að ætla að alþingismaður sem vill að borin sé virðing fyrir sér og þeirri stofnun sem hann starfar hjá myndi reyna að kynna sér málin áður en svo stórum ásökunum er kastað á einstakling, í þessu tilfelli Jón Ásgeir Jóhannesson.“
Einar segir að hefði Ásthildur kynnt sér málin betur ætti hún að sjá að líklega hafi enginn Íslendingur fyrr eða síðar verið jafn ítarlega rannsakaður og Jón Ásgeir.
„Hefði Ásdís gert það hefði hún auðveldlega getað orðið sér úti um vitneskju um að líklega hefur ekki viðskiptaferill nokkurs Íslendings fyrr eða síðar sætt nákvæmari rannsókn yfirvalda, og það án þess nokkurn tímann fyndist snefill af glæpum eins og þeim sem þingmaðurinn telur sér sæmandi að fleipra um í greininni.“
Einar segir að það rétta sé að Jón Ásgeir hafi ekki átt ráðandi hlut í Glitni banka líkt og Ásthildur haldi fram. Hann hafi ekki setið í stjórn, var ekki starfsmaður og hafði engin afskipti af rekstrinum.
„Jón Ásgeir var með óskiljanlegum hætti ákærður vegna einhverra viðskipta bankans, sem áttu sér stað fyrir hrun, en sýknaður af þeim sakargiftum á öllum dómstigum. Jón Ásgeir hlaut engan dóm eftir íslenska efnahagshrunið. Að þingmaður skuli leyfa sér síðan að halda því fram að hann hafi stungið af úr landi með ránsfeng og skilið 15.000 fjölskyldur eftir í sárum, er ósmekklegt og fjarri öllum sanni.
Að lokum mætti kannski leyfa sér að setja fram þá kröfu eða þá von að umræddur þingmaður, sem og aðrir þingmenn, reyni að setja sig betur en hér var gert, inn í þau mál sem þeim hefur verið treyst til að fjalla um og byggja umræðuna á gögnum og staðreyndum – ekki innihaldlausum upphrópunum – þó ekki væri nema landsmanna allra vegna.“