fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Harðstjórnarríki rauða aðalsins

Eyjan
Sunnudaginn 24. apríl 2022 18:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögum Sovétríkjanna komu af til út bækur á Vesturlöndum þar sem greint var frá kúgun, pyndingum, morðum og öðrum fólskuverkum stjórnvalda í kommúnistaríkjunum. Enn er það svo að Kína, fjölmennasta ríki heims, er eins flokks ríki kommúnista. Þar urðu þó breytingar í frjálsræðisátt undir lok síðustu aldar sem gerðu Kínverska alþýðulýðveldið að „verksmiðju heimsins“. En vonir um að kínverskur almenningur fengi notið frelsis og lýðræðis var tálsýn eins og lesa má um í nýlegri bók Desmond Shum, Red Roulette eða Rauðri rúllettu, sem út kom hér á landi fyrir skemmstu í afbragðs þýðingu Jóns Þ. Þór.

Desmond Shum ólst upp í fátækt í Sjanghæ en þegar hann var barn að aldri flúðu foreldrar hans til Hong Kong þaðan sem þau brutust úr fátækt til bjargálna. Desmond var efnilegur ungur maður og komst til náms í Bandaríkjunum. Heimkominn lét hann að sér kveða í viðskiptalífi Hong Kong og 1997 fluttist hann til Beijing. Þar kynntist þar nýju Kína; efnahagskerfið hafði tvöfaldast frá því að Deng Xioping hóf að aflétta höft á viðskiptum 1992 og tvöfaldaðist síðan aftur fram að árinu 2004. Einkafyrirtæki þutu upp eins og gorkúlur á mykjuhaug og flokkurinn hvatti um leið til neyslu.

Tálsýn um lýðræðisumbætur

Í Beijing kynntist Desmond tilvonandi eiginkonu sinni Whitney Duan sem var óðum að hasla sér völl í hinu sístækkandi viðskiptalífi Kína. Með því að sameina krafta sína og mynda tengsl við fólk í æðstu lögum kommúnistaflokksins komust þau í hóp kínverskra milljarðamæringa. Desmond lýsir þeim hjónum sem föðurlandsvinum en fjölmargir kínverskir menntamenn hefðu snúið heim um aldamótin og viljað taka þátt í að nútímavæða föðurlandið. Sjálfur hafi hann verið í þessum hópi. Desmond taldi jafnvel ekki ósennilegt að með tíð og tíma yrði tekið upp fjölflokkakerfi. Og á æðstu stöðum virtust sífellt fleiri skilja að ríkisfyrirtækin yrðu ekki langlíf vegna innbyggðrar óhagkvæmni.

Fólk á borð við Desmond og Whitney trúði að þrátt fyrir vankanta á kínversku efnahagslífi þá væri Eyjólfur að hressast, allt stefndi í átt til opnara og frjálsara þjóðfélags eftir því sem einkaframtakinu yxi fiskur um hrygg. En það gerðist ekki — einfaldlega vegna þess að það var aldrei ætlun kommúnistaflokksins.

Um 2005 var hafist handa við að veikja stöðu efnamanna og um leið styrkja ríkisfyrirtækin á kostnað einkafyrirtækja. Flokksklíkan taldi efnamenn hafa gengið of langt í kröfum um aukið frelsi. Desmond segir svo frá:

„Við höfðum talið að auður okkar gæti leitt til félagslegra breytinga, en þar höfðum við rangt fyrir okkur. Þetta var eitt það dapurlegasta sem ég hef upplifað.“

Og bætir við:

„Í mínum huga var sterkustu rökin fyrir einræðistilhneigingum Flokksins hins vegar að finna í eðli kínverska kommúnistaflokksins. Hann hefur nánast dýrslegt viðhorf til yfirráða og kúgunar sem er ein af grundvallarstoðum lenínismans. Í hvert skipti sem Flokkurinn eygir tækifæri til kúgunar grípur hann það.“

Flokkurinn herti tökin

Breytingar sem áttu sér stað í efnahagsmálum Kína stöfuðu af nauðsyn — ekki af trú á kosti frjáls markaðar. Flokkurinn vissi sem var að hann var einfaldlega tilneyddur til að lina tökin á efnahagslífinu ætti hann að lifa af. Það var nauðsynlegt að kaupsýslufólk á borð við Desmond og Whitney fengi að starfa. Þegar komið var fram á árið 2008 höfðu allar hagvaxtartölur verið tveggja stafa í tvo áratugi og ekki lengur þörf fyrir einkaframtakið en forkólfum kommúnistaflokksins stóð líka ógn af hinni nýju auðstétt og herti því tökin.

Þegar Xi Jinping var að undirbúa valdatöku sína sumarið 2012 komst í umferð skjal frá aðalskrifstofu kommúnistaflokksins þar sem varað var við hættulegum vestrænum gildum á borð við sjálfstæði dómstóla og málfrelsi. Gildi af þessu tagi væru þegar farin að „sýkja“ kínverskt þjóðfélag. Í kjölfarið var fjölmörgum frjálsum fjölmiðlum hreinlega lokað eða þeir afhentir flokksgæðingum.

Þá voru tökin sömuleiðis hert á Hong Kong og loforðin sem gefin höfðu verið 1997 — er Bretar yfirgáfu nýlenduna — svikin eitt af öðru. Lögreglan var send af meginlandinu til Hong Kong til að ræna bóksölum og útgefendum sem gefið höfðu út eða selt efni sem ekki féll kínverskum stjórnvöldum í geð. Að sama skapi var grafið undan stjórnmálakerfinu í Hong Kong og sjálfum var Desmond skipað að halda sem fótgönguliði þangað en þetta var um það leyti sem regnhlífahreyfingin lét fyrst að sér kveða. Verkefni Desmonds þar syðra fólst meðal annars í því að skipuleggja gagnmótmæli sem fóru þannig fram að starfsmönnum fyrirtækja var greitt fyrir að halda í mótmælagöngur til stuðnings stjórnvöldum í Beijing.

Enn hefur Xi Jinping hert tökin en í mars 2018 fékk hann samþykktan viðauka við stjórnarskrá alþýðulýðveldisins þess efnis að kjörtímabil forseta skyldu afnumin. Hann er nú lýstur „þjóðarleiðtogi“ og hafin persónudýrkun á honum.

Flokkurinn hefur þann tilgang að þjóna rauða aðlinum

Desmond Shum segir meginmarkmið kínverska kommúnistaflokksins þjónkun við hagsmuni sona og dætra byltingarmanna — rauða aðalsins sem svo er nefndur. Hann nefnir að þau Whitney hafi kynnst mörgu þessu fólki. Þeirra á meðal var Liu Shilai, barnabarn Gu Mu, gamals byltingarmanns og vinar Deng Xiaoping. Liu hafði efnast mjög á að selja pólitísk sambönd, til dæmis seldi hann leyfi brunavarnaryfirvalda og lækningayfirvalda, framseldi leyfin eða leigði og fékk í sinn hlut skerf af hagnaðinum. Þetta fólk hegði sér eins og aðalsfólk fyrri alda í Evrópu, það giftist innbyrðis, lífi lífi sem sé gjörólíkt lífi hins venjulega Kínverja.

Desmond er nú landflótta ásamt syni sínum en barnsmóðir hans og fyrrverandi eiginkona var numin brott árið 2017 og síðan hefur ekkert til hennar spurst. Desmond kvaðst hafa þurft á öllu sínu hugrekki að halda til að rita bókina en hann vildi frekar segja skoðun sína og deyja en þegja og lifa. Og einmitt nú þegar harðstjórnaröfl hliðholl stjórnvöldum í Beijing murka lífið úr saklausum borgurum inni í miðri Evrópu er hollt fyrir okkur sem hér búum — blessunarlega á áhrifasvæði öflugasta lýðræðisríkis heims — að huga að grunngildum vestræns samfélags, lýðræði og mannréttindum, og vera um leið tilbúin að gagnrýna ógeðfellda stjórnarherra Kínverska alþýðulýðveldisins í stað þess að heiðra skálkinn í von um að hann skaði ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu