Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra kasta ryki í augu fólks með skýringar þeirra á Íslandsbankasölunni. Jóhann vekur athygli á þessu á Facebook þar sem hann rekur hvers vegna rök um svonefnda armslendgarreglu haldi ekki vatni.
Katrínu og Bjarna hefur orðið tíðrætt undanfarið um armslengdarregluna í svörum sínum við harðri gagnrýni á Íslandsbankasöluna. Meðal annars hafi sú regla valdið því að þau hafi ekki verið upplýst fyrirfram um væntanlega þátttakendur í útboðinu og eins hafi útboðsfyrirkomulagið ekki gert ráð fyrir að fjármálaráðherra færi yfir kaupendalistann til að samþykkja tilboð vegna sjónarmiða um armslengd. Allar ákvarðanir hafi verið teknar í armslengd frá Bjarna.
Nú bendir Jóhann á að armslengdarreglan hafi átt við um daglegan rekstur ríkisbankanna, en ekki um sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum.
„Armslengdarreglan sem oft er talað um í samhengi við eigendastefnu og eignarhald ríkisins á fyrirtækjum snýst um að stjórnmálamenn hafi ekki afskipti af daglegum ákvörðunum félaga sem ríkið á hlut í, að staðið skuli faglega að vali stjórnarmanna og að tryggt sé að félögin og stjórnir þeirra njóti sjálfstæðis frá beinum pólitískum afskiptum,“ skrifar Jóhann Páll og rekur að í lögum um Bankasýslu ríkisins sé gert ráð fyrir að daglegum rekstri ríkisbankanna sé heldið í armslengd frá ráðherra. „Það eru hins vegar engin armslengdarsjónarmið skrifuð inn í lögin um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í bönkum, hvorki í lagatexta né greinargerð frumvarpsins frá 2012.“
Þvert á móti sé í lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í bönkum gert ráð fyrir að ráðherra ráði ferð og vaki yfir ferlinu. Því haldi rök um að fjármálaráðherra sé stikkfrí í gagnrýninni á Íslandsbankasöluna ekki vatni.
„Ráðherra tekur ákvörðun um hvort sölumeðferð skuli hafin, ráðherra leggur línurnar um söluaðferð og markmið sölunnar, ráðherra tekur endanlega ákvörðun um hvort gengið sé að tilboðum og ráðherra undirritar samninga fyrir hönd ríkisins.
Þegar Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson þrástagast á „armslengdarsjónarmiðum“ í samhengi við Íslandsbankasöluna eru þau einfaldlega að kasta ryki í augu fólks. Það er óheiðarlegt en það eru allir farnir að sjá í gegnum þau.“