fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Hyggjast leggja Bankasýsluna niður eftir hrakfarnirnar við sölu Íslandsbanka

Eyjan
Þriðjudaginn 19. apríl 2022 11:18

Mynd/Eyþór

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórnin hyggjast leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þetta er meðal annars það sem kemur fram í yfirlýsingu frá formönnum stjórnarflokkanna sem birtist á vef Stjórnaráðsins fyrir stundu. Þar kemur fram að hrakfarirnar við sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi leitt í ljós þörfina fyrir endurskoðun á lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi.

Yfirlýsing Ríkisstjórnarinnar í heild sinni:

Formenn stjórnarflokkanna eru sammála um eftirfarandi atriði í tengslum við sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór í mars.

Við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum er gerð rík krafa um gagnsæi, jafnræði og ítarlega upplýsingagjöf til almennings. Ljóst er að framkvæmd sölunnar stóð ekki að öllu leyti undir væntingum stjórnvalda, m.a. um gagnsæi og skýra upplýsingagjöf.

Þá hafa komið upp spurningar, álitamál og gagnrýni um framkvæmd sölunnar sem fór fram sem nauðsynlegt er að rannsaka og upplýsa almenning um.

Ríkisendurskoðun hefur þegar hafið úttekt á því hvort salan hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Þá hefur fjármálaeftirlit Seðlabankans hafið rannsókn á tilteknum þáttum tengdum sölunni.

Komi fram þörf fyrir frekari rannsóknir þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Seðlabankans liggja fyrir mun ríkisstjórnin beita sér fyrir slíku á vettvangi Alþingis.

Þeir annmarkar sem í ljós hafa komið við undirbúning og framkvæmd sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafa leitt í ljós þörfina fyrir endurskoðun á lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulagi.

Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar verður lögð áhersla á ríkari aðkomu Alþingis og að styrkari stoðum verði skotið undir að tryggja gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings. Frumvarp þessa efnis verður lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er.

Ekki verður ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka að sinni. Þegar ný löggjöf liggur fyrir mun ákvörðun um mögulega sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verða tekin fyrir á Alþingi. Ríkisstjórnin leggur hér eftir sem hingað til áherslu á óbreytt eignarhald ríkisins á hlut sínum í Landsbankanum.

Traust og gagnsæi verður að ríkja um sölu á eignum ríkisins. Almenningur á skýra og óumdeilda kröfu um að allar upplýsingar séu uppi á borðum um slík áform, markmið þeirra og áhrif.

Hlutafjárútboð Íslandsbanka og skráning á markað í fyrra skilaði markmiðum stjórnvalda, svo sem eins og dreifðu eignarhaldi og fjölbreytni í eigendahópnum. Þá hefur mikil aukning á verðmæti fjármálafyrirtækja í ríkiseigu undanfarið ár styrkt stöðu ríkissjóðs til að gera enn betur og fjárfesta til framtíðar.

Ríkisstjórnin hefur haft það leiðarljós að ávinningur af eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og sölu þeirra sé nýttur í þágu almennings. Meðal annars með því að nýta hann með beinum hætti til uppbyggingar innviða í almannaþágu eða til að styrkja stöðu ríkissjóðs til að veita mikilvæga þjónustu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar