Gríðarleg óánægja er nú á meðal skjólstæðinga Samgöngustofu með störf stofnunarinnar undanfarin ár. Er nú svo komið að útgerðarmenn hvalaskoðunarbáta og annarra skemmtiferðabáta íhuga stöðu sína gagnvart stofnuninni og hyggjast hjóla af hörku í stofnunina og forstjóra hennar, Jón Gunnar Jónsson.
Staðan nú er tilkomin af áralangri baráttu rekstraraðila við stofnunina og ósanngjarnar reglur og ákvarðanir teknar af embættismönnum hennar. Má þá segja að soðið hafi endanlega upp úr þegar Landhelgisgæslan að undirlagi Samgöngustofu hafi tekið yfir farþegaflutningaskip í miðri hvalaskoðunarferð með farþega og flutt skipið aftur í höfn. Segja forsvarsmenn Sea Trips, sem gera út skipið, að hegðun Samgöngustofu og gæslunnar jaðri við einelti.
Málið snýst um ákvörðun Samgöngustofu um að skipið megi aðeins sigla með 12 farþega ef það fer út fyrir línu sem ákveðin var af embættismönnum hennar. Línan takmarkar skipið svo til við ytri höfn Reykjavíkur ef farþegafjöldinn fer yfir tólf. Í gær var ár liðið frá því að dómur féll í Héraðsdómi þar sem dómari sýknaði forsvarsmenn útgerðarinnar af ákæru um að hafa farið út fyrir þessa línu og fyrir að hafa ekki tilkynnt gæslunni um farþegafjölda.
Jón Gunnar var skipaður forstjóri árið 2019 til fimm ára eftir að starfið var auglýst, þrátt fyrir að sitjandi forstjóri hafi lýst yfir áhuga á að starfa áfram. Þórólfur Árnason, þáverandi forstjóri Samgöngustofu, var einn umsækjenda, en svo fór að Jón Gunnar var metinn hæfari en Þórólfur. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, skipaði í stöðuna.
Sagði DV frá því þegar ráðning Jóns Gunnars lá fyrir að ófriður innan stofnunarinnar og úttekt á starfsemi hennar þar sem alvarlegar aðfinnslur voru gerðar kunni að hafa dregið Þórólf niður í stigagjöf hæfnisnefndarinnar.
Alvarlegustu aðfinnslurnar í dag eru gerðar við starf siglingadeildar Samgöngustofu. Er stofnunin sögð taka handahófskenndar ákvarðanir þar sem meira skiptir hverjir eiga í hlut en hvaða rök þeir hafa fyrir máli sínu. Þá eru sumar reglurnar sem Samgöngustofa setur sagðar „sér-íslenskar,“ samkvæmt viðmælendum Orðsins. Ríma þær ásakanir við niðurstöðu skýrslunnar fyrrnefndu.
Fullar niðurstöður hennar eru reyndar enn á huldu. Þegar nefndin, sem skipuð var af Jóni Gunnarssyni, sjálfstæðismanni og þáverandi samgönguráðherra, hafði lokið við skýrslugerð var Sigurður Ingi, framsóknarmaður, tekinn við í ráðuneytinu. Segja þeir sem þekkja til málsins og rætt hafa við DV að Sigurður hafi stungið skýrslunni ofan í skúffu og lítið aðhafst. Þegar skýrslan var svo kynnt þingmönnum samgöngunefndar Alþingis höfðu stórir hlutir hennar verið svertir svo ekki sást hvað stóð þar.
Af orðum Sigurðar Kára Kristjánssonar, lögmanns og formanns nefndarinnar, sem hann lét falla í viðtali við Morgunblaðið, má þá ráða að innihald hennar hafi ekki verið jákvætt fyrir stjórnendur Samgöngustofu.