Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, vill að lög um ráðherraábyrgð verði virkjuð vegna Íslandsbankasölunnar, en sala ríkisins á 22,5 prósenta hlut sínum í Íslandsbanka hefur vakið hörð viðbrögð í samfélaginu, einkum vegna afsláttarverðs og vegna þeirra kaupenda sem hleypt var að í útboðinu – sem var lokað almenningi.
Jóhanna tjáir sig um málið á Facebook.
„Salan í Íslandsbanka er svo mikið sukk og svínarí að bæði þarf að leita leiða til að rifta henni og draga menn til ábyrgðar. Það er ekki nóg með að skúrkar úr bankahruninu hafi komist bakdyramegin inn heldur virðast dyr lánastofnana hafi staðið þeim opnar til lántöku fyrir góssinu.“
Jóhanna vísar svo til fréttar Kjarnans um að fjöldi kaupenda væri þegar búinn að selja hlutinn sem það fékk að kaupa á góðum afslætti, með góðum gróða. Jóhanna segir að rétt væri að virkja ráðherraábyrgð vegna málsins.
„Fjöldi kaupenda seldi strax og græddi milljarða á „einni nóttu“ af almannaeign. Spillingin gerist vart svæsnari. Nú þarf að virkja lög um ráðherraábyrgð, sem Alþingi hefur heykst á að breyta þrátt fyrir kröfu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu þar um. Þeim lögum ætlaði mín ríkisstjórn að láta breyta á árinu 2010 en forsætisnefnd Alþingis sagði að það væri verkefni Alþingis en ekki forsætisráðherra að leggja fram frumvarp þar að lútandi. Ég skora á Alþingi að breyta þegar í stað þessum lögum en frumvarp liggur fyrir um það frá Samfylkingunni og Pírötum.“
Rétt er þó að benda á að frétt Kjarnans sem Jóhanna vísar til, sem byggði á samanburði á hluthafalista eins og hann var nýlega og lista yfir kaupendur í útboðinu, gerir ekki ráð fyrir svonefndum framvirkum samningum sem margir nýtt til kaupanna, en með slíkum samningum koma nöfn hluthafa ekki fram á hluthafalista. RÚV greindu frá því í dag að í reynd hafi fáir selt hlut sinn í bankanum, eða líklega um 15 af þeim ríflega 200 fjárfestum sem fengu að kaupa í lokaða útboðinu.
Ráðherraábyrgð felur í sér að ráðherrar bera ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum og þá má krefja til ábyrgðar svo sem fyrir að hafa af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá eða önnur landslög og eins ef hann hefur stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.
Lög um ráðherraábyrgð eru komin töluvert til ára sinna en þau voru sett árið 1963. Þar má finna ýmis ákvæði sem kveða á um ábyrgð ráðherra vegna eigin embættisverka sem og vegna verka undirmanna hans. Í lögunum má einnig finna refsiheimild sem kveður á um sektir eða fangelsi allt að 2 árum fyrir brot gegn lögunum. Hann geti einnig orðið skaðabótaskyldur gagnvart almenningi eða einstaklingi ef hann baki þeim fjártón með framkvæmd eða vanrækslu sem sé refsiverð samkvæmt lögunum.
Nú liggur, líkt og Jóhanna nefnir, fyrir frumvarp um breytingu á þessum lögum þar sem lagt er til að ákvæði verði bætt við lögin um að ráðherra geti verið dreginn til ábyrgðar ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leyni upplýsingum sem hafi verulega þýðingu við meðferð máls.
Í frumvarpinu er rakið að ein af ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis um efnahagshrunið 2008 hafi komið fram að Alþingi hafi ekki náð að rækja eftirlitslutverk sitt gagnvart ráðherrum með öflugum hætti. Þyrfti þingið aukið sjálfstæði frá framkvæmdavaldinu og meðal annars lagt til að lög um ráðherraábyrgð yrðu endurskoðuð.