Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að eftirlitshlutverk Seðlabankans nái ekki yfir Bankasýsluna en nái hins vegar yfir samskipti söluaðila útboðsins við viðskiptavini sína. Hlutverk söluaðilanna var að flokka viðskiptavini sína, skera úr um hvort þeir væru „hæfir“ til að fá að fjárfesta í útboðinu.
Forsvarsmenn Seðlabankans vildu ekki tjá sig um málið við Morgunblaðið í gær. Blaðið segist hafa fengið staðfest að óskað hafi verið eftir upplýsingum frá söluaðilum um nánari skýringar á hvernig þátttakendur í útboðinu voru flokkaðir, hvaða skilyrði voru fyrir hendi til að flokka þá sem fagfjárfesta og hvort þessi skilyrði hafi verið í samræmi við lög. Enginn grunur er sagður vera um lögbrot.