Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar, segist hafa fengið margar fyrirspurnir um hvaða rannsóknarheimildir sú nefnd sem hún ásamt fleiri þingmönnum stjórnarandstöðunnar hafa krafist að verði skipuð til að rannsaka Íslandsbankasöluna, hefði umfram Ríkisendurskoðun sem meirihlutinn á þingi hefur fengið til rannsóknarinnar. Hún svarar því til í færslu á Facebook.
Hún segir að það gildi ólík lög um slíka rannsóknarnefnd annars vegnar og svo hins vegar Ríkisendurskoðun.
„Í lögum um rannsóknarnefndir er heimild til að sækja fólk sem neitar að mæta í skýrslutöku um mál. Þá er einnig heimild til að sækja heimild til dóms fyrir afhendingu gagna. Slík heimild er ekki í lögum um ríkisendurskoðanda.“
Eins sé í lögum um rannsóknarnefndir að finna heimild til að gera þá undanþegna sök sem að eigin frumkvæði upplýsi um brot. Slík heimild sé ekki hjá Ríkisendurskoðun.
„Í lögum um rannsóknarnefndir er heimild fyrir nefndina að heimila þeim sem hafa frumkvæði um að upplýsa um brot, sem mögulega starfaði á vettvangi brots, að vera undanþegnir sök. Þetta skiptir mjög miklu máli og er hvati fyrir þau sem vita að brot voru framin en vilja ekki tala því þá fella þau á sig sök. Slík heimild er ekki hjá ríkisendurskoðun.“
Helga Vala tekur þó fram að í báðum lögum séu ákvæði um vernd uppljóstrara sem feli í sér að ekki megi sækja þann til sakar sem ljóstri upp um mál sem ætti að vera leynd um, eins og hvað varði viðskipti einstaklinga og fyrirtækja.
Önnur ástæða sem Helga Vala telur mikilvæga er sú að Lilja Alfreðsdóttir hafi nýlega skipað Skúla Eggert Þórðarson, sem hafði verið ríkisendurskoðandi frá árinu 2018, ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu. Var þetta gert á grundvelli þess að verið væri að flytja Skúla til í starfi, en þetta athæfi var harðlega gagnrýnt. Enn í dag hafi þingið ekki kosið nýjan Ríkisendurskoðanda.
Helga Vala skrifar:
„Loks verður að nefna að ástæða þess að við kjósum Umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðanda í þingsal er til að gefa þeim ákveðna vernd frá framkvæmdavaldinu sem er til rannsóknar hjá þeim. Það er ekki hægt að víkja þeim frá störfum enda eru þessi embætti kosin af Alþingi og því er hann sjálfstæðari í sínum störfum. Nú höfum við engan slíkan því Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra sótti ríkisendurskoðanda og gerði hann að ráðuneytisstjóra. Enginn ríkisendurskoðandi hefur verið kosinn heldur er settur ríkisendurskoðandi óbreyttur og því í raun óvaldaður starfsmaður embættisins.“
Að lokum beinir Helga Vala orðum sínum til þingmanna Vinstri Grænna, en í gær greindi Helga Vala frá því að stjórnarliðar hafi hafnað kröfu stjórnarandstöðunnar um að skipa rannsóknarnefnd. Því hafnaði Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokks VG, en hann vísaði því á gær í bug að stjórnarliðar hafi hafnað óskinni og hafi skýrt komið fram í ræðum þingmanna VG á þingi í gær að þau séu ekki andvíg slíkri nefnd.
Helga Vala skrifar um þetta:
„Að allra lokum þá verður að taka það fram að ef VG hefði verið á því að það ætti að skipa rannsóknarnefnd, eins og þau hafa verið að reyna að halda fram síðan í gær, þá hefði verið meirihluti fyrir því. Þau hins vegar vildu það ekki og verða bara að standa með því.“
Orri Páll mætti í þáttinn Vikulokin í dag og sagði þar að svo virðist sem að Bankasýslan hafi klúðrað Íslandsbankasölunni og ljóst sé að traustið sé farið. Bjarni Jónsson, þingmaður VG, sagðist telja eðlilegast að framkvæmdastjóri og stjórn Bankasýslunnar stigi til hliðar vegna málsins.