„Það er mjög lítið framboð er af leiguíbúðum akkúrat núna og það lítur ekki út fyrir að það mun batna á næstunni”, segir Ásgeir Gunnarsson stofnandi Leiguland.is um stöðuna á leigumarkaði. Ásgeir er búinn að vera fylgjast með leigumarkaðnum síðan 2019 en þá stofnaði hann umrædda vefsíðu í kjölfar þess að hann hafði fengið sig fullsaddan af því að þurfa fylgjast heppilegum leigueignum á fjölmörgum síðum.
Þegar Leiguland.is fór í loftið voru um 1000 leiguíbúðir í boði á markaðinum en að sögn Ásgeirs eru þær í dag aðeins um 380 talsins. Bendir hann á að Samtök leigjenda á Íslandi hafi um miðjan mars lýst yfir neyðarástandi á leigumarkaðinum.
Í samtali við DV segir Ásgeir að það blasi við að leigusalar séu í auknum mæli að færa sig yfir í skammtímaleigu til ferðamanna eins og Airbnb. „Þegar Covid brast á þá fóru margar Airbnb-íbúðir í langtímaleigu á meðan faraldurinn stóð yfir. Núna er að rofa til í ferðaþjónustunni og því virðist sem að þessar íbúðir séu aftur að fara á Airbnb-markaðinn,“ segir Ásgeir.
Hann bendir á að verðið fyrir hverja nótt á Airbnb-markaðinum sé í sumum tilvikum upp undir 40 þúsund krónur. „Langtímaleigumarkaðurinn keppir ekki við þessi verð.“
Ásgeir segir að mesta framboðið af eignum á höfuðborgarsvæðinu í dag sé í Miðbænum, Austurbænum og Árbænum. „Unga fólkið og námsmenn, sem er líklegra til að vera á leigumarkaði, vill helst búa í Miðbænum og það er því ekki skrýtið að framboðið, og eftirspurnin, sé mest þar en þar er líka mikil hreyfing á eignum,“ segir Ásgeir.
Hann segir að um þriðjungur af framboðinu í dag séu lítil herbergi, 10-20 fermetrar, og að þar sé fermetraverðið afar hátt eða 8.000 – 10.000 krónur fermeterinn. „Til samanburðar þá eru leiguverðið á 60 – 120 fermetra íbúðum um 2.000 – 4.000 krónur,“ segir Ásgeir.
Þá segir hann að góðar leiguíbúðir staldri stutt við á markaðinum. „Um 45% af auglýstum eignum eru búnar að vera á markaðinum lengur en 80 dagar,” segir Ásgeir. Ástæðan fyrir því að leigueignir séu lengi á markaðinum eru nokkuð augljósar, annaðhvort er ástandið ekki nógu gott eða þá farið sé fram á of hátt verð.