fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Hiti á Alþingi vegna Íslandsbankasölunnar: „Er verið að ljúga hér í pontu?“

Eyjan
Fimmtudaginn 7. apríl 2022 14:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Segja má með sanni að nokkur hiti hafi verið í þingmönnum stjórnarandstöðunnar á Alþingi í dag vegna Íslandsbanka-útboðsins sem átti sér stað í mars, en í gær var opinberaður listi yfir þá aðila sem fengu að taka þátt í útboðinu og kaupa í bankanum á afslætti.

Meðal kaupenda voru aðilar sem áttu hluta í gömlu föllnu bönkunum, faðir fjármálaráðherra, aðilar sem sæta rannsókn héraðssaksóknara vegna meintra auðgunarbrota, forstjóri Samherja og svona mætti áfram telja.

Eðlilega var málið því rætt á Alþingi í dag, sérstaklega eftir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra þvertók fyrir að nokkuð athugavert hafi verið við söluna en hann hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að útboðið hafi verið vel heppnað og náð sínum markmiðum.

Fjármálaráðherra hefur nú lagt til að Ríkisendurskoðun fari yfir útboðið og fari svo yfir málið með þinginu, en þetta sagði hann í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.

Undir liðnum Fundarstjórn forseta stigu margir þingmenn stjórnarandstöðunnar í pontu og gagnrýndu ríkisstjórnina, þá einkum fjármálaráðherra. Verður hér gert stuttlega grein fyrir því sem þar kom fram.

Eftiráskýringar, gaslýsingar og rugl

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði ótrúlegt að heyra „eftiráskýringar, gaslýsingar og ruglið“ í fjármálaráðherra um söluna. Rétt væri að skipa óháða og sjálfstæða rannsóknarnefnd til að fara yfir söluna, frekar en Ríkisendurskoðun.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokk fólksins, velti upp spurningunni hvaða fyrrverandi hrunbankamenn hafi fengið peninga fyrir sínum kaupum í Íslandsbanka.

 „Tortóla, Cayman eða eru þeir kannski að fá kúlulán? Við þurfum að fá svar við því. Hvernig í ósköpunum getum við, eftir allt sem áður skeði í bankahruninu, leyft hlutum að fara á þennan veg? Þetta er okkur til háborinnar skammar. Þessi ríkisstjórn getur ekki selt einn banka skammlaust. Maður verður stundum alveg kjaftstopp.“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, telur að aftur sé verið að gera sömu mistök og gerð voru í aðdraganda hrunsins.

„Ef maður skoðar bara lista yfir hrunkaupmennina í þessum banka núna; Jón Ásgeir Jóhannesson, stærsti eigandi í Glitni fyrir efnahagshrunið, Þorsteinn Már Baldursson, forstjóri Samherja og stjórnarformaður Glitnis, Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Ben. sem forðaði 500 milljónum úr Glitni fyrir hrun. Við erum að gera sömu mistökin aftur og aftur.“

Er verið að ljúga hér í pontu?

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telur að verið sé að „tala niður til þingheims og almennings“ þegar rætt sé um söluna sem heilbrigð og eðlileg viðskipti.

Í seinni ræðu sinni undir sama lið lagði hún til að nefnd yrði falið að fara yfir öll ummæli fjármálaráðherra í aðdraganda útboðsins þar sem þingið hafi ekki undan að tengja saman það sem Bjarni sagði fyrir útboðið og svo það sem hann hefur sagt eftir það.

„Nú er talað um að úthýsa ábyrgðinni til fjárlaganefndar, að háttvirt fjárlaganefnd hafi láðst að setja lágmark í þessu ferli. Hvers konar ábyrgð er það? Hæstvirtur ráðherra getur ekki einu sinni sýnt forystu í þessu máli, hann úthýsir henni til fjárlaganefndar. Framferði Bankasýslunnar í þessu máli er ótrúleg.

Ég hvet alla hér inni til að hlusta á viðtal við stjórnarformann og framkvæmdastjóra Bankasýslunnar í gær og hvernig þeir tala um almenningseign, að aðilar hafi verið hvattir til að hringja í sem flesta til að hámarka þóknanir sínar, skattfé.

Fjármálaráðherra sagði ítrekað í fjölmiðlum fyrir þetta útboð að það væri ekki hæsta verðið sem skipti máli, það væri eðli fjárfestanna. Er verið að ljúga hér í pontu? Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu máli.“

Heldur hann að við séum öll bara einhverjir hálfvitar?

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar sagðist ekki geta orða bundist. Taldi hann fjármálaráðherra sé beinlínis að villa um fyrir Alþingi með ummælum sínum.

„Hingað kemur hæstvirtur fjármálaráðherra, nýbúinn að selja pabba sínum ríkiseign, nýbúinn að selja viðskiptafélögum sínum frá útrásarárunum eignir almennings, nýbúinn að selja fólki með dóma fyrir efnahagsbrot á bakinu, nýbúinn að selja sakborningi í umfangsmiklum mútubrotamáli eignir almennings, og segir okkur að svart sé hvítt og hvítt sé svart og þessum þvættingi eigum við bara að sitja undir. Heldur hann að við séum öll bara einhverjir hálfvitar?“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, spurði hvort ekki hefði verið eðlilegt að til væri listi yfir æskilega kaupendur að mikilvægum fjármálafyrirtækjum.

„Er ekki eðlilegt að orðspor kaupenda sé metið og við sitjum t.d. ekki uppi með gamla eigendur Glitnis og Kaupþings í nýjum hluthafahópi? Orðspor þeirra er að fyrir tíu árum fór banki sem þeir gömbluðu með svo mikið á hausinn að fullt af fólki sem ekki voru þeir sátu uppi með tugmilljarða óuppgerðar kröfur. Nú bara fá þeir að kaupa banka á afslætti.“

Það er eitt í dag og annað á morgun

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, sagðist hreinlega vera rasandi yfir málinu. Hann spurði hvaða skilyrði þeir fjárfestar sem ekki teljast virkir en fengu að taka þátt í útboðinu þurftu að uppfylla.

„Hverjir voru hæfir fjárfestar sem voru valdir inn í þetta til viðbótar við virka fjárfesta? Ég átta mig ekki á þessu. Hverjir voru hæfir í þessu tilfelli? Ég er bara rasandi. Það er eitt í dag og annað á morgun. Ég fæ ekki annað séð en að þessi ríkisstjórn sé bara að sýna íslenskum almenningi afturendann og það er gert í boði Vinstri grænna.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, furðaði sig á því að eini þingmaður meirihlutans sem hefði tjáð sig undir þessum lið væri Óli Björn Kárason og hann hefði sagt að hann ætli ekki að fella neina dóma eða spyrja spurninga.

„Þá segi ég: Hér er að falla innanhússmet í meðvirkni.“

Þá steig Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokks Vinstri Græna, og sagði honum bæði ljúft og skylt að stíga í pontu og að ef hugmyndir Bjarna um skoðun Ríkisendurskoðunar væri ekki nóg þá taki hann heils hugar undir þær hugmyndir að setja á fót sérstaka rannsókn í málinu.

Eins steig Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar í pontu og sagðist vel skilja vangaveltur fólks um söluna bæði á þingi og í samfélaginu.

„Ég óttast það ekki að við rannsökum þetta ferli frá A til Ö og ég hvet til þess að svo verði gert því að hér er ekkert að fela.“

Jóhann Friðrik Friðriksson þingmaður Framsóknar steig einnig í pontu og sagðist sömuleiðis skilja áhyggjur sem fólk hafi, en salan hafi tekist mjög vel en til að eyða tortryggni sé sjálfsagt að rannsókn fari fram.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar