Sólveig Anna Jónsdóttir telur að Agnieszka Ewa Ziółkowska, sitjandi formaður Eflingar, hafi notið stuðnings „valdamikilla aðila í samfélaginu“ í herferð sinni gegn Sólveigu Önnu og stuðningsmönnum hennar. Telur hún það sjást skýrt af því að syni ráðherra og aðstoðarríkissáttasemjara hafi verið falið að gera úttekt á viðskiptum Eflingar við hönnuð sem var falið að gera heimasíðu félagsins, auk annarra verkefna.
Sólveig tekur formlega við sem formaður Eflingar eftir viku. Hún segir að sú atburðarás sem „mögnuð hefur verið upp af andstæðingum“ hennar erfiða. Þó séu mikilvæg verkefni fram undan og því ekki annað í boði en að láta mótlætið herða sig. Hún skrifar um þetta í færslu á Facebook.
Þar segir Sólveig að henni þyki miður að Agnieszka, hafi ekki virt vilja trúnaðarráðs og félagsfólks Eflingar sem vildu að Sólveig tæki við formannsembættinu þann 15. mars.
„En ég verð að horfast í augu við að hún ætlaði sér auðvitað aldrei að gera það. Í stað þess að virða vilja félagsfólks hefur hún notað síðustu vikur sínar í því embætti sem hún gegnir tímabundið til að dylgja um mig og Viðar Þorsteinsson, m.a. á fundum trúnaðarráðs Eflingar og á miðstjórnarfundum ASÍ.“
Vísar Sólveg þar til þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað um viðskipti Eflingar við hönnuðinn og sósíalistann Andra Sigurðsson, en nú mun lögmaður vera að leggja lokahönd á úttekt á þeim viðskiptum. Bæði Sólveig Anna og fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar, Viðar Þorsteinsson, hafa harðlega gagnrýnt framgöngu Eflingar í málinu og telja að þar sé á ferð liður í hefndaraðgerða sitjandi formanns gegn Sólveigu Önnu fyrir að hafa haft betur í formannskjörinu.
„Og þegar í ljós kom að athugun Deloitte á viðskiptum Eflingar við Sigur vefstofu vegna vefsíðugerðar og annara vef og miðlamála leiddi nákvæmlega ekkert athugavert í ljós brá umboðslaus formaðurinn á það ráð í hömluleysi sínu að kaupa þjónustu lögmanns til að finna eitthvað á Viðar og/eða mig, eitthvað sem hjálpaði henni í að ná loksins árangri í því að losna við mig úr verkalýðshreyfingunni, en þrátt fyrir óumdeilanlegan árangur þann sem Efling undir minni stjórn hefur náð í kjarabaráttu verka og láglaunafólks telur fráfarandi formaður að vangeta mín sé svo mikil að best sé fyrir alla (eða allavega hana og starfsfólk skrifstofu félagsins) að ég hypji mig og setjist vælandi útí samfélagslegt horn, brennimerkt sem glæpakona, þar sem ég get engan “skaða” unnið, hvorki íbúum skrifstofuvirkis verkalýðshreyfingarinnar eða íslenskri borgara og auðvaldsstétt.“
Sólveig segir að Agnieszka hafi í þessari herferð sinni notið stuðnings valdamikilla aðila samfélagsins. Sjáist þetta vel í vali hennar á lögmanni til að framkvæma áðurnefnda úttekt. En sá lögmaður er Oddur Ástráðsson sem er sonur Svandísar Svavarsdóttur Matvælaráðherra og Ástráðs Haraldssonar, aðstoðarríkissáttasemjara.
„Í þessu verkefni sínu, að forða óumbeðin íslensku verkafólki undan ógæfunni sem ég er í lífi þeirra hefur hún að sjálfsögðu notið mikils stuðnings valdamikilla aðila samfélagsins, enda er þetta mikið og augljóst þjóðþrifamál. Leyfi ég mér að fullyrða að val hennar á lögmanni þeim sem nú vinnur fyrir hana á kostnað félagsfólks Eflingar er ekki tilviljun; lögmanni sem hún hefur afhent allar fundargerðir stjórnar félagsins frá því síðla árs 2018 til að lúslesa í leit að skít til að kasta í Viðar og mig.“
Sólveig segist hafa heimildir fyrir því að Agnieszka hafi ekki fengið leyfi stjórnar Eflingar fyrir því að afhenda Odd fundargerðir stjórnar félagsins, eins hafi hún ekki leitað eftir samþykki Sólveigar Önnu sem þó hafði verið kjörinn formaður þegar ákveðið var að ráðast í úttektina.
Sólveig segir stór verkefni fram undan hjá Eflingu – kjaraviðræðurnar. Þrátt fyrir þær ásakanir sem hafi verið viðraðar gegn Sólveigu undanfarin misseri breyti það ekki þeirri staðreynd að samninganefndir undir hennar stjórn hafi náð raunverulegum árangri og ætlar Sólveig að tryggja að sú saga endurtaki sig í haust.
„Sú atburðarás sem mögnuð hefur verið upp af andstæðingum mínum og félaga minna í baráttunni er erfið. Stundum því sem næst óbærileg. En hvað er hægt að gera annað en að láta þá ömurlegheitin verða erfiðleikanna virði; við látum rógburðinn, árásirnar og skítkastið ekki buga okkur eða brjóta okkur heldur herða. Það er einfaldlega ekkert annað í boði þegar svo mikið er í húfi.“