Freyja Steingrímsdóttir hefur verið ráðin í stöðu samskiptastjóra BSRB og mun hún hefja störf um mánaðarmótin. Samskiptastjóri stuðlar að sýnileika bandalagsins í opinberri umræðu, ber ábyrgð á kynningarmálum og samskiptum við fjölmiðla auk þess að vinna náið með forystu BSRB að stefnumótun og hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu.
Freyja er stjórnmálafræðingur að mennt með sérhæfingu í jafnréttisfræðum og hefur umfangsmikla reynslu af almannatengslum, stefnumótun, stjórnsýslu og ýmis konar málefnaherferðum. Hún vann áður á Alþingi sem aðstoðarmaður formanns Samfylkingarinnar og fyrir það sem ráðgjafi hjá Indigo Strategies þar sem hún stýrði stórum verkefnum fyrir regnhlífarsamtök evrópskra verkalýðshreyfinga og sinnti bæði stefnumótun og hagsmunabaráttu í þágu launafólks í Evrópu. Hún hefur m.a. starfað hjá Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópuþinginu.
„Það eru stór verkefni framundan hjá BSRB og við fögnum því að fá Freyju til liðs við okkar öfluga teymi. Okkar hlutverk er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu og stuðla að bættu velferðarsamfélagi. Ég veit að Freyja brennur fyrir þessum málum og mun koma af krafti inn í þá baráttu,” segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB.