Fjárfestirinn Jónas Hagan Guðmundsson hefur gengið frá kaupum á 353,7 fermetra fokheldri íbúð við Reykjastræti 6 í Austurhöfn. Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag og slær því upp að um dýrustu íbúð Íslandssögunnar sé að ræða. Í umfjöllun blaðsins kemur meðal annars fram að Jónas hafi áður gert atlögu að Íslandsmeti í fasteignakaupum með því að fjárfesta í þremur íbúðum í Skuggahverfinu árið 2015.
Sjá einnig: Bandarískt par keypti penthouse-íbúð við Austurhöfn á 295 milljónir króna
Íbúðina í Austurhöfn keypti Jónas í gegnum fjárfestingafélag sitt Dreisam ehf. en íbúðin er sú stærsta af þeim 71 íbúðum sem byggðar voru á reitnum. Ekki liggur fyrir hvert kaupverð eignarinnar var en í umfjöllun Morgunblaðsins í apríl í fyrra kom fram að ásett verð hafi verið um hálfur milljarður króna sem þýðir að fermetraverðið er um 1,4 milljónir króna.
Í lýsingu af eigninni kemur fram að eigninni fylgi tvennar svalir og tvö bílastæði og inngengt sé í íbúðina beint úr lyftu. Þá sé gert ráð fyrir sex herbergjum og fjögur baðherbergi í íbúðinni. Þá býðst íbúðarkaupendum hönnunarráðgjöf frá Stúdíó Homestead og Nordic Smartspaces við útfærslu innréttinga, húsgagnavals og útfærslu snjallheimilsins.
Nánari umfjöllun er á vef Viðskiptablaðsins