Ekki er von á nýrri orku hjá Landsvirkjun fyrr en eftir fjögur til sex ár. Mikil eftirspurn er eftir orku þessi misserin en ekki er hægt að anna henni allri.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem fjallað er um ársfund Landsvirkjunar sem fór fram í gær. þar sagði Hörður Arnarson, forstjóri, að mikil eftirspurn sé eftir orku en fjögur til sex ár líði þar til orka berst frá nýjum virkjunum.
Hann sagði frá áherslum fyrirtækisins við sölu á nýrri orku á næstu árum og sagði að ekki verði til næg orka til að mæta þeim öllum, hvað þá öðrum. Hann sagði að fljótlega eigi að vera hægt að komast í gang með virkjanir til að geta mætt eftirspurninni. Þetta væru flókin verkefni og mikilvægt sé að ná breiðri sátt um þau. Togstreita á milli loftslagsmála og náttúruverndar væri til staðar en loftslagsmál væru stærsta náttúruverndarmálið. Hann sagði að finna þurfi jafnvægi þarna á milli.