fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Eyjan

Gróflega misboðið að Reykjavíkurborg lúffi fyrir frekjugangi eigenda – „Það hafa aldrei verið neinar deilur“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 21. mars 2022 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Teitur Atlason, fráfarandi varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur harðlega mótmælt áformum borgarinnar um málamiðlun í Sundlaugartúnsmálinu svokallaða. Málið varðar einbýlishúsalóðir við Einimel og Sundlaug Vesturbæjar, þar sem íbúar hafa á einum tíma eða öðrum fært út lóðarmörk sín umfram opinbera skráningu og girt af. Sagði Teitur meðal annars af sér sem varaborgarfulltrúi vegna málsins.

Hann fer nánar yfir sjónarmið sín í málinu í grein sem birtist hjá Vísi í dag, en þar hvetur hann borgarbúa til að láta í sér heyra og mótmæla nýju deiliskipulagi.

Höfðingleg gjöf Reykjavíkur til eigenda einbýlishúsa í Vesturbæ

Í greininni kallar Teitur nýja deiliskipulagið „höfðinglega gjöf frá Reykvíkingum til eigenda Einimels 18-26″. Þar rekur hann einnig forsögu málsins til þess að árið 1990 hafi þáverandi íbúi á einni lóðinni við Einimel tekið sig til og fært lóð sína út fyrir þinglýst lóðamörk.

„Sá var öllum hnútum kunnugur hjá borginni enda starfandi gatnamálastjóri.“ 

Næsti eigandi af þessari eign hafi verið varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og hafi hún sagt í viðtali árið 2018 að hún væri að „annast um viðbót við lóðina okkar“ og að lóð hennar liti því út fyrir að vera stærri en hún í raun væri. Tók sú einnig fram að hún hafi ekki farið fram á að lóðin yrði stækkuð heldur væri viðbótin í „fóstri.“

Teitur segir að umræddar viðbætur hafi stækkað lóðirnar við Einimel 22,24 og 26 um alls 388 fermetra.

Íbúar vissu að þeir ættu ekki tilkall

Árið 2009 hafi svo íbúar í Einimel 18, 22 og 22 tekið sig til og stækkað lóðir sínar um 3,1 metra inn á tún Vesturbæjarlaugar. Teitur segir þetta hafa verið „freklega landtöku“ og birtir máli sínu til stuðnings skjáskot af athugasemdum sem eigendur Einimels 18 og 22 hafa látið falla á samfélagsmiðlum.

Annar sagði: „Ef þetta veldur einhverjum ágreiningi þá er sjálfsagt að færa girðinguna og óska eftir nýrri frá borginni honum megin við trén, en það kemur mér á óvart ef þetta hefur truflað nokkurn.“

Hinn sagði: „Ég byggði húsið á Einimel 22 og var þess mjög meðvitaður að borgin átti þenna aukaskika og beið alltaf eftir einhverjum aðfinnslum eða óskum frá borginni – sem aldrei komu.“

Teitur segir ofangreint ummæli sýna svo ekki verði um villst að að eigendur hafi gert sér grein fyrir því að borgin eigi lóðina sem þeir voru að „sölsa undir sig.“

Teitur birti svo myndina hér að neðan til að skýra málið betur:

Teitur rekur að árið 2017 hafi Reykjavíkurborg sent íbúum Einimels bréf um að þeim bæri að rífa niður girðinguna. Hafi lögmenn íbúanna svarað því til að girðingar kæmu eigendum ekki við þar sem þau hafi ekki reist þær sjálf heldur fyrri íbúar.

Veltir Teitur fyrir sér hvað hafi valdið því að borgin sé nú að sætta sig við þessa landtöku. Eitthvað hljóti að hafa gerst og þurfi borgin að rökstyðja málið betur. Vísanir til þess að það hafi verið miklar deilur – séu ekki nægilega nákvæmar til að réttlæta málið.

„Það kemur ekki fram í fundargerð Skipulags- og samgönguráðs frá sama tíma. Fundargerðin sem fylgdi ákvörðuninni um stækkun lóðanna innifelur engin rök önnur en þau að „miklar” og „töluverðar“ deilur hafi staðið um þetta svæði. En það er „tóm tjara” eins og sagt er. Það eru engar deilur. Það hafa aldrei verið neinar deilur.“

Falleg tré

Einu rökin í bréfum frá lögfræðingum íbúa séu að þarna séu falleg trá innan girðingar og yrði leitt að sjá þeim spillt ef viðbótin yrði færð aftur til borgarinnar. Teitur segir þau rök ekki halda vatni.

„Þessu er til að svara að fallegu trén sem minnst er á, standa á landi Reykjavíkur. Eignarhald á umræddum trjám er óumdeilt. Við Reykvíkingar eigum þessi tré. Það er fráleitt að nota þessi fallegu tré sem skiptimynt fyrir samninga við eigendur þessara trjáa. Reykvíkingar eiga þessi tré. Ekki íbúar við Einimel.“ 

Teitur telur að ef deiliskipulagið verði að raunveruleika sé verið að setja hættulegt fordæmi, og gæti sent þau skilaboð að borgarbúar geti helgað sér landsvæði umfram opinbera skráningu. Veltir hann fyrir sér hvort borgin tæki eins á málum ef um fjölbýlishús væri að ræða.

„Ef maður færir þetta mál í huganum frá fínustu götu Vesturbæjar yfir í næstu götu (Kaplaskjólsvegur) og ímyndar sér hvort fjölbýlishúsin þar fengu sömu meðferð frá Skipulags- og umhverfisráði og íbúarnir í einbýlishúsunum við Einimel? Sjáið þið fyrir ykkur að lóðarskiki sem tekin var í „fóstur“ af fjölbýlishúsi í 30 ár skapi þeim samningsstöðu gagnvart Reykjavíkurborg sem skili þeim 15-20 milljón króna verðmætum?“ 

Þessu hljótum við að mótmæla

Hvetur Teita alla sem vettlingi geta valdið að senda inn athugasemdir, en ákvörðun Skipulags- og umhverfisráðs er nú í umsagnarferli.

„Ég bendi áhugasömum á að það eru tæknilegar hindranir athugasemdaforminu því gera má ráð fyrir því að enginn nema „aðilar málsins” geti átt gildar athugasemdir. Mikilvægt er að taka fram hvað gerir mann að „aðila málsins”. Notandi sundlaugartúnsins myndi ég ætla að dugði sem rök. Á næstu dögum verður hrint í framkvæmd undirskriftasöfnun gegn þessari ákvörðun. Ég hvet Reykvíkinga alla til að skrifa undir og þegar þar að kemur.“

Eigendur einbýlishúsa við Einimel hafi í tveimur áföngum, 1990 og 2009 sölsað undir sig borgarland og það hafi einhvern veginn skapað þeim samningsstöðu sem skil sér nú í að lóðir þeirra verði varanlega stækkaðar.

„Þessu hljótum við að mótmæla. Ekki bara niðurstöðunni sem slíkri, heldur að ekki eigi að taka mark á frekjugangi og aldrei eigi að gefast upp fyrirfram eins og þessi ákvörðun ber með sér.“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan