fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Sigurður Ingi með kröftuga ræðu á flokksþingi – „Vonandi ber rússnesku þjóðinni gæfa til að losa sig við illmenni úr Kreml“

Eyjan
Laugardaginn 19. mars 2022 13:11

Ummæli Sigurðar Inga hafa vakið mikla reiði í samfélaginu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir að hann hafi talið að hann myndi aldrei upplifa þá ógnartilfinningu sem hann fann bærast innra með sér þegar Pútín minnti á kjarnorkuvopnaeign Rússlands. Hann segist fagna samstöðu þjóðarinnar um að opna faðminn fyrir úkraínsku flóttafólki og allt verði gert til þess að hér geti fólk upplifað öruggt skjól.

„Vonandi verður stríðið ekki langt og vonandi verður það ekki blóðugra og vonandi næst að stöðva þessi illvirki – Vonandi ber rússnesku þjóðinni gæfa til að losa sig við illmenni úr stjórn þessa merkilega lands sem Rússland er,“ sagði Sigurður Ingi.

Ísland verði sjálfstætt í orkumálum

Þessi orð lét Sigurður Ingi falla á setningarræðu sinni á Flokksþingi Framsóknarflokksins sem hófst með formlegum hætti á Grand Hótel í Reykjavík í hádeginu. Þetta er í fyrsta skipti í fjögur ár sem Framsóknarmenn koma saman á flokksþingi og skrifast það á heimsfaraldurinn skæða. Ekki er búist við átakaþingi þó eflaust verði skiptanir skoðanir á ýmsum málefnum. Ræða formanns er tvímælalaust einn af hápunktum þingsins og Sigurður Ingi fór mikinn.

Hann benti á þá ógn sem íbúar Mið- og Austur-Evrópu búa við vegna þess hversu háð mörg lönd eru um kaup á olíu og gasi frá Rússlandi.

„Þessi orka er ekki til að knýja bíla eða önnur farartæki, hún er til þess að hita húsnæði fjölskyldna víða um Evrópu, ekki síst í Þýskalandi. Þar er staðan sú að verð á húshitun hefur hækkað gríðarlega nú þegar og getur ef meiri harka færist í leikinn orðið til þess að ekki verði hægt að hita upp húsnæði milljóna fjölskyldna. Á Íslandi búum við ekki við þessa ógn sem þjóðir Mið- og Austur-Evrópu búa við. Hér erum við sjálfstæð varðandi húshitun okkar og lýsingu og getum drifið framleiðslu okkar áfram með innlendri raforku. Það er þó hætt við því að stríðið og orkukreppan hafi áhrif á hag okkar því líklega eru kaup okkar á jarðefnaeldsneyti um og yfir 120 milljörðum króna á ári hverju. Við getum verið stolt af fyrri orkuskiptum okkar þegar stórhuga fólk á fyrri hluta síðustu aldar hóf hitaveitubyltingu landsins – stærstu loftslagsaðgerðina hingað til. Við getum verið stolt og við getum fengið innblástur úr þeirri byltingu í verkefnið sem er framundan – sem er að gera Ísland fullkomlega sjálfstætt í orkumálum. Og slíkt sjálfstæði er ekki aðeins meira en hundrað milljarða króna gjaldeyrissparnaður – slíkt sjálfstæði er allt,“ sagði Sigurður Ingi.

Nauðsynlegt sé að virkja meira

Sagði ráðherrann það blasa við að til þess að ná slíku sjálfstæði þá þyrfti að virkja meira hérlendis.

„Við fengum fyrir nokkrum dögum í hendurnar skýrslu sem sýnir að til þess að verða sjálfstæð í orkumálum og til þess að auka lífsgæði okkar enn frekar þá verður að virkja meira. Þvert á orðræðu síðustu ára – er það nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt til þess að öðlast algjört sjálfstæði þegar kemur að orkunotkun. Það er nauðsynlegt til þess að mæta skuldbindingum okkar í loftslagsmálum. Og það er nauðsynlegt til að skapa ný störf og framtíðar hagvöxt. Um leið er það nauðsynlegt að við göngum ekki á náttúruna okkar þannig að við getum skilað henni af fullri reisn til komandi kynslóða. Við þekkjum það, Framsóknarfólk, að landið og náttúruauður þess er okkur óendanlega kær. Við erum í grunninn flokkur íslenskra bænda sem hafa frá landnámi verið vörslumenn landsins og þekkjum skýrt ábyrgð okkar gagnvart landinu okkar. Við erum öll náttúruunnendur og verndarar lands.“

Sigurður Ingi sagði að næstu ár og áratugir mynd færa Íslendingum spennandi tækifæri í því að byggja að byggja upp atvinnu í kringum hreina orku.

„Þau tækifæri þurfum við að íhuga vel og vandlega. Við megum ekki ana að neinu en við megum ekki heldur sitja aðgerðarlaus og láta tækifærin fram hjá okkur fara. Við getum orðið leiðandi í því að framleiða rafeldsneyti sem mun hjálpa okkur síðustu metrana til orkusjálfstæðis. Við munum þurfa að knýja skipaflota okkar, þungavinnuvélar og flugflota með rafeldsneyti og þá er mikilvægt að við byggjum upp þekkingu og tækni til að búa það til hér á landi. Útflutningur á rafeldsneyti gæti orðið nauðsynlegur til þess að skapa stærðarhagkvæmni í framleiðslunni – og um leið orðið mikilvægur grænn iðnaður sem hjálpar til að leysa loftslagsvandann. Á slíkum iðnaði munum við öll græða – í sátt við náttúru okkar. Slíkur iðnaður gæti orðið mikil lyftistöng fyrir byggðir vítt og breitt um landið. Yfir 100 milljarða gjaldeyrissparnaður er ávísun á veruleg lífsgæði samhliða ávinningnum um hreint loft – og engan útblástur kolefnis.“

Sigurður Ingi fór meðal annars yfir stöðu sjávarútvegsins og sagði að Framsóknarmenn ætluðu að leggja sitt af mörkum til þess að skýrt yrði í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum væri eign Íslendinga.

Áhyggjur af ofurhagnaði í sjávarútvegi

„Ofurhagnaður einstakra fyrirtækja og sífellt aukin ítök sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum greinum er eitthvað sem við í Framsókn höfum haft áhyggjur af. Við höfum lagt mikla áherslu á að þjóðareign auðlinda verði skýrð í stjórnarskrá Íslands. Því miður hefur stjórnmálaflokkunum ekki auðnast að ná samhljómi um stjórnarskrárbreytingar en við munum leggja okkar af mörkum til að staðfesta það í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum, eins og aðrar auðlindir landsins, séu í eign þjóðarinnar. Við munum líka leggja mikla áherslu á að ná sátt um þau gjöld sem sjávarútvegurinn greiðir, ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja, samhliða verulega aukinni arðsemi greinarinnar næstu 10 ár, renni til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar. Við erum til í samtalið um hvernig þessi sátt, sem er nauðsynleg, ekki síst fyrir greinina sjálfa – náist.“

Þá lýsti ráðherrann einnig yfir áhyggjum sínum á því hvað eignarhald í fiskeldi væri á fárra höndum.

„Það getur ekki gengið til lengdar að stór hluti fiskeldis við Íslands strendur sé í eigu fárra erlendra aðila. Við þurfum að stíga örugg skref í átt til þess að tryggja dreift íslenskt eignarhald í þessari ört vaxandi grein.“

Hér er hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá Flokksþingi Framsóknar:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar