Borgarstjóri fer í næstu viku til Eystrasaltsríkjanna þar sem hann mun funda með borgarstjórum vinaborganna Riga, Vilníus og Tallinn og kynna sér móttöku og stöðu flóttafólks.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur átt í samtali við borgarstjóra vinaborganna Tallinn, Riga og Vilníus eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Þessi ferð er sprottin úr þeim samtölum og er tilgangurinn ekki síst að ítreka óvítræða samstöðu Reykvíkinga við íbúa höfuðborganna í Eystrasaltsríkjunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Þá mun borgarstjóri einnig kynna sér móttöku og stöðu flóttafólks og önnur helstu verkefni borganna.
Ísland varð fyrst allra ríkja í heiminum til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltslandanna og í kjölfar þess hefur samstarf landanna vaxið og dafnað, einkum í samstarfi með hinum Norðurlöndunum. Reykjavík og höfuðborgir Eystrasaltsríkjanna eru jafnframt vinaborgir og hefur samstarf borganna í gegnum árin verið á ýmsum vettvangi, einkum menningarlegum.
Með borgarstjóra í för verður Pétur Krogh Ólafsson aðstoðarmaður borgarstjóra. Að lokinni heimsókn til Eystrasaltsríkjanna heldur hann til Helsinki þar sem hann fundar með borgarstjóra og embættismönnum Helsinki ásamt borgarráði Reykjavíkur.
Borgarstjóri segir innrás Rússa í Úkraínu hafa slegið íbúa álfunnar óhug og líklega hvergi meir en í nærliggjandi rikjum við Rússland og ríkjum fyrrum Sovétrikjanna. Mikilvægt er því að sýna samstöðu með vinaborgum okkar í rikjum Eystrasaltsins. „Það vildi þannig til að borgarstjóri Vilnius vildi fá mig með sér til Kænugarðs áður en Rússar réðust inn í landið, en ég fékk Covid og komst því miður ekki. Þess vegna sammæltumst við um það að við myndum funda í tengslum við ferð mína til Helsinki,” segir Dagur.
Jafnframt hefur borgarstjóri sent einróma ályktun borgarstjórnar frá 1. mars s.l. þar sem innrás Rússlands í Úkraínu er fordæmd með formlegum hætti til borgarstjóra Kænugarðs og Lviv í Úkraínu, og vinaborga Reykjavíkurborgar Wroclaw í Póllandi, Riga í Lettlandi, Tallinn í Eistlandi og Vilníus í Litháen auk þess að senda hana á sendiráð Rússlands á Íslandi og til borgarstjóra Moskvu.