Staksteinar Morgunblaðsins leiðar líkur að því að þingmenn Samfylkingarinnar séu að afvegaleiða umræðuna um húsnæðisvandann með stöðugum fyrirspurnum sínum um málið á Alþingi þegar raunveruleg rót vandans liggi innan Samfylkingarinnar:
„Nú líður varla sá dagur á Alþingi að þingmenn Samfylkingar renni ekki í pontu og ræði húsnæðismál. Segja má að nokkurn kjark þurfi til og má þá segja þingflokki Samfylkingar til hróss að þar fari kjarkað fólk. Nema ef vera kynni að þetta sé liður í kosningabaráttu Dags B. Eggertssonar og félaga í Reykjavík vegna sveitarstjórnarkosninganna. Það skyldi þó ekki vera að þessi ítrekaða umræða þingmanna Samfylkingarinnar hafi það að markmiði að afvegaleiða umræðuna um húsnæðisvandann?
Í gær þurftu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar að ræða húsnæðisvandann undir liðnum fundarstjórn forseta þó að tengslin á milli fundarstjórnar og húsnæðisvanda séu ekki endilega augljós.“
Staksteinar greina síðan frá því að Lilja Alfreðsdóttir, stjórnarþingmaður og menningar- og viðskiptaráðherra, hafi bent á að lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu væri helsta ástæðan fyrir háu húsnæsðisverði. Samfylkingin bæri ábyrgð á lóðaskortinum. Ráðlagði hún Kristrúnu Frostadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, að ræða vandann við borgarstjóra:
„Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tók einnig til máls, sagðist fagna umræðunni en spurði svo hvað ylli hinni miklu hækkun á verði húsnæðis. Og hún svaraði því sjálf: „Það er auðvitað þannig að það skortir framboð á húsnæði. Og hver ætli beri mikla ábyrgð á því að framboðsskortur er hér á höfuðborgarsvæðinu? Ja, það er nú Samfylkingin. Ég ætla að leggja það til að háttvirtur þingmaður Kristrún Frostadóttir boði til félagsfundar í Reykjavík og ræði framboðsmálin við borgarstjórann í Reykjavík þann ágætismann, Dag B. Eggertsson.“
Hætt er við að langt sé í að Kristrún og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar fundi með félögum sínum í borgarstjórn um vandann, enda gæti þá orðið erfitt að fela að hann er heimatilbúinn.“