Mikill meirihluti Íslendinga er hlynntur eða frekar hlynntur lagningu Sundabrautar. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem markaðsrannsóknarfyrirtækið Maskína lagði fyrir tilviljunarkennt úrtak úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 7-14. febrúar síðastliðinn og voru svarendur alls 926 talsins.
Spurt var „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) lagningu Sundabrautar, burt séð frá því hvort hún verður á brú eða í göngum?
Alls voru 46,8% aðspurða (379) mjög hlynntir því að Sundabraut yrði að veruleika en 19,5% (158) fremur hlynntir. Þá voru 27,5% í meðallagi (223) hlynntir eða andvígir framkvæmdinni. Athygli vekur að aðeins 1,7% (14) aðspurðra voru mjög andvígir framkvæmdinni en 4,5% (37) fremur andvígir.
Því eldri sem svarendur voru því líklegri voru þeir að vera hlynntir framkvæmdinni og þá var mikill munur á afstöðu fólks eftir búsetu. Einstaklingar sem búa á Vesturlandi eða Vestfjörðum voru afar hrifnir af hugmyndinni (76,2% mjög hlynntir) en þeir sem voru búsettir á Suðurlandi voru ekki eins hrifnir (35% mjög hlynntir). Helgast það væntanlega af því að fyrri hópurinn er mun líklegri til að nota Sundabraut grimmt.