Einar Þorsteinsson, fyrrum fréttamaður og stjórnmálafræðingur, leiðir lista Framsóknar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí. Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, skipar annað sætið. Listinn var samþykktur á auka kjördæmaþingi á Hilton Reykjavík Nordica nú í kvöld.
Í þriðja sæti er Magnea Gná Jóhannsdóttir, laganemi og í því fjórða er er Aðalsteinn Haukur Sverrisson, framkvæmdastjóri og varaþingmaður. Í fimmta sæti er Þorvaldur Daníelsson, stofnandi Hjólakrafts og MBA.
„Ég er mjög þakklátur að fá að leiða lista þessa öfluga framsóknarfólks sem vill láta gott af sér leiða fyrir Reykvíkinga. Listinn er skipaður fólki með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu og þekkingu af málefnum borgarinnar. Ég finn mikinn meðbyr með Framsókn og síðustu daga hafa fjölmargir gefið kost á sér til þess taka þátt í starfinu. Það er greinilegt að borgarbúar vilja geta kosið ferskan og öfgalausan valkost á miðju stjórnmálanna sem vantað hefur undanfarið kjörtímabil. Framsókn er flokkur fjölskyldunnar og í borgarmálunum er verk að vinna“ sagði Einar Þorsteinsson, nýr oddviti Framsóknar í Reykjavík.
Dr. Árelía Eydís Guðmundsdóttir hefur komið víða við í störfum sínum og býr yfir umfangsmikilli reynslu. Einar fagnar framboði hennar.
„ Ég vil taka þátt í samfélagi mínu með því að byggja upp traust í garð borgaryfirvalda og styðja við fjölskyldur. Í öðru lagi með því að hafa forystu um umhverfisvernd og jafnrétti í víðtækum skilningi þess orðs; Í þriðja lagi með því að efla sköpun með því að styðja við frumkvöðlastarf, menntastofnanir, íþróttastarf, listir og menningu.
Á listanum eru 24 karlar og 22 konur. Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi og ráðherra, er í heiðurssæti listans.
Hér má sjá listann í heild sinni: