Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Njáli að þetta eigi einnig við um starfsemi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, en hann er formaður samtakanna. „Við erum að vakna upp af þyrnirósarsvefni. Þessi mál hafa verið svolítið í dvala í þrjátíu ár,“ er haft eftir honum.
Á laugardaginn stóð Varðberg fyrir svokölluðum NATO skóla í Háskólanum í Reykjavík. Þar var starf NATO kynnt sem og varnarsamningurinn frá 1951 og fleira. Voru fyrirlestrarnir vel sóttir að sögn Njáls. „Við höfum ekki séð aðra eins samstöðu innan ríkja NATO um áratuga skeið. Við höfum heldur ekki séð aðra eins samstöðu á Alþingi,“ er haft eftir honum.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við Fréttablaðið að stefna flokksins hafi ekki breyst en í stefnu flokksins er lögð áhersla á að hér eigi ekki að vera her, hvorki innlendur né erlendur, og að Ísland eigi að standa utan varnarbandalaga. „Við virðum hins vegar þá þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2017 með yfirgnæfandi stuðningi, en aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er ein af stoðum hennar,“ sagði hún.