Stór samningur var undirritaður í dag og með honum kemur fjármálafyrirtækið SaltPay inn í eigendahóp Dineout. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að eigendahópurinn samanstandi nú af Ingu Tinnu Sigurðardóttur (stofnanda og hugmyndasmiðs fyrirtækisins), Tix miðasölu ehf, Magnúsi Birni Sigurðssyni, Viktori Blöndali Pálssyni ásamt SaltPay.
Stjórn Dineout verður skipuð af Sindra Má Finnbogasyni (stofnanda Tix Miðasölu), Ingu Tinnu Sigurðardóttur auk eins stjórnarmeðlims frá SaltPay í Bretlandi.
Fyrir þremur árum var menningu landsins breytt með fyrstu hugbúnaðarlausninni frá Dineout, borðabókunarkerfi. Almenningur gat loks bókað borð í örfáum skrefum inni á markaðstorginu dineout.is og veitingastaðurinn þurfti ekki að samþykkja borðabókun heldur gerðist allt sjálfvirkt.
Í dag virðist það komið í vöðvaminni landsmanna að ef þú ætlar út að borða, þá ferðu inná Dineout.is. Það gerir það gríðarlega mikilvægt fyrir veitingastaði að vera partur af Dineout fjölskyldunni því það er margsannað að bókanir og viðskipti aukast.
Heildarfjöldi gesta sem sest hafa til borðs í gegnum Dineout eru rúmlega 6.5 milljónir. Heildarfjöldi borðabókana er tæplega 1.8 milljón frá upphafi og nú eru um 170 veitingastaðir í viðskiptum við Dineout. Um 90.000 heimsóknir eru inn á dineout.is í hverjum mánuði og um 25.000 manns hafa sótt sér Dineout Iceland appið.
Dineout er ekki bara borðabókunarkerfi heldur býr yfir öllum þeim lausnum sem veitingastaður þarf til að starfrækja. Fyrirtækið býður upp á lang vinsælasta borðabókunarkerfi landsins (með 95% markaðshlutdeild), matarpöntunarkerfi (take-away og heimsendingu), kassakerfi (nýjasta afurðin), gerð heimasíðna, sjálfvirkar greiðslur með QR kóðum ásamt sölu viðburða (jólahlaðborð, vínsmökkunarnámskeið og fleiri viðburðir sem tengjast veitingastöðum). Veitingastaður getur fengið heildapakka með öllum lausnum eða handpikkað þær lausnir sem henta hverju sinni.
Hagræðing í einni heildarlausn er sú að starfsfólk þarf þá aðeins að læra á eitt kerfi í stað margra mismunandi. Þegar breyta þarf matseðlum og verðum, er nóg að breyta á einum stað í kerfinu og þá uppfærast allir aðrir hlutar sem þurfa að uppfærast. Einnig er utanumhald utan um upplýsingar og tölfræði mun öflugri þegar allar aðgerðir eru gerðar í einu og sama kerfinu.
Dineout er nú þegar komið í sókn á erlenda markaði og í næsta mánuði verða lausnirnar innleiddar í Noregi.
Síðustu mánuðir hafa m.a. farið í að tengja saman lausnir Tix miðasölukerfis við lausnir Dineout. Niðurstaðan er heildarlausn fyrir tónleikahallir, kvikmyndahús og leikhús. Tix starfar nú í 9 löndum og mun þessi nýja heildarlausn fara í notkun í Noregi í næsta mánuði. Klár stökkpallur fyrir Dineout í útrás á erlenda markaði ásamt því að um einstaka lausn er að ræða á evrópskum markaði og í raun á heimsvísu. Tónleikahallir, kvikmyndahús og leikhús hafa kallað eftir einni lausn sem býður upp á miðasölu, kassakerfi og matarpantanir og ný sameinuð lausn Tix og Dineout leysir þessa þörf.
„Fjármögnun SaltPay er gríðarlega spennandi og frábært að fá þá inn í eigendateymið,“ segir Inga Tinna. Fjármagnið mun meðal annars fara í að styrkja stöðu Dineout hérlendis ennfrekar ásamt því að sækja á erlenda markaði.
„Ísland hefur verið frábær markaður fyrir okkur og hefur stuðlað að hraðri þróun lausnanna. Við erum komin á þann stað að lausnir okkar eru tilbúnar fyrir erlenda markaði. Frá upphafi hafa veitingamenn tekið þátt í þróun allra þeirra kerfa sem við höfum komið á markaðinn og hefur það gert lausnir okkar eins góðar og raun ber vitni,“ segir Inga Tinna. Við erum þeim og landsmönnum gríðarlega þakklát fyrir viðtökurnar.
Samhliða fjármögnun SaltPay mun Dineout ráða inn starfsfólk á næstu vikum. „Við búum í dag yfir yfirburða færu starfsfólki en þótt ótrúlegt megi virðast hefur okkur tekist að komast á þennan stað, aðeins fimm talsins (lengi vel þrjú). Það er ekki fjöldi starfsmanna sem gildir heldur gæði og gæðin eru svo sannarlega til staðar hjá Dineout,“ segir Inga Tinna.