Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands á þingi Starfsgreinasambandsins þann 23-25. mars á Akureyri.
Vilhjálmur segir að hópur formanna innan sambandsins, sem muni sitja þingið, hafi undanfarið haft samband við hann og skorað á hann að bjóða fram krafta sína.
Hann greinir frá framboðinu á Facebook:
„Það er ekkert náttúrulögmál að lágmarkslaun dugi ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar, eða hér viðgangist okurvextir, okurleiga, húsnæðisskortur, og hátt vöruverð á öllum sviðum. Nei ekkert af þessu er náttúrulögmál heldur mannanna verk sem hægt er að breyta eina sem þarf er kjartur, vilji og þor!
Það er hins vegar mikilvægt að allt verka- og láglaunafólk átti sig á því að réttinda- og kjarabarátta er eilífðarverkefni sem lýkur aldrei!“
Í tilkynningu á vef Verkalýðsfélags Akraness greinir Vilhjálmur frá þeim áherslumálum sem hann hefur verið með á tíma sínum sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni.
Vilhjálmur telur að formennska í Starfsgreinasambandinu muni ekki hafa áhrif á starf hans sem formaður í Verkalýðsfélagi Akraness þar sem aðeins er um hlutastarf að ræða og fari störfin að auki vel saman enda hafi tíðkast að formaður Starfsgreinasambandsins sé samhliða formaður í aðildarfélagi sambandsins.