fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Eyjan

Svona náði Pútín tökum á Rússlandi – Lítur á sig sem keisara

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 28. febrúar 2022 07:18

Vladímír Pútín.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir 40 árum notaði ungur majór í sovésku leyniþjónustunni KGB öll brögð til að fá fleiri Vesturlandabúa til liðs við KGB. Markmiðið var að fá aðgang að nýrri tækni og leyndarmálum NATO. Þessi metnaðarfulli major var Vladimir Vladimirovitsj Putin sem er venjulega nefndur Vladímír Pútín hér á landi.

Hann hafði hlotið bestu mögulegu þjálfun sem njósnari en hafði ekki náð neitt sérstökum árangri í starfi sínu og hafði ekki náð miklum frama innan KGB.

Aðalverkefni hans í Austur-Þýskalandi var að fá Austur-Þjóðverja, sem máttu ferðast til útlanda, til liðs við KGB. Þetta fólk var yfirleitt með góðar ástæður fyrir að fá ferðaheimildir en þetta voru meðal annars háskólafólk, blaðamenn, vísindamenn og tæknifólk. Hann þjálfaði þetta fólk til að taka vel eftir á ferðum sínum út fyrir Járntjaldið.

Pútín hefur oft minnst þessa tíma með hlýju og skemmst er að minnast sjónvarpsávarps hans í síðustu viku þar sem hann tilkynnti að hann myndi viðurkenna sjálfstæði tveggja héraða í austurhluta Úkraínu sem hafa verið undir stjórn Rússa og leppa þeirra úr röðum sjálfstæðissinna árum saman. Í ávarpinu ræddi hann mikið um stórveldistíma Sovétríkjanna. „Rússland var rænt þegar Sovétríkin hrundu,“ sagði hann.

Segja má að Pútín sé stoltur föðurlandsvinur en hann hefur neitað að taka afstöðu gegn Joseph Stalin og grimmdarlegum stjórnarháttum hans. Eftir hrun Sovétríkjanna fékk hann starf sem ráðgjafi umdeilds stjórnmálamanns í St. Pétursborg sem er heimaborg Pútín. Hann hélt sig til hlés þar og lét lítið fyrir sér fara. Það gerði hann einnig þegar hann varð yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB 1998 og allt þar til Boris Jeltsin, þáverandi forseti, gerði hann að forsætisráðherra 1999.

Í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu hafa margir sérfræðingar sagt hann haldinn stórmennskubrjálæði og að hann sá haldinn ranghugmyndum og telji sig vera keisara.

Leyndarhjúpur um lífshlaupið

Pútín fæddist í Leníngrad, nú St. Pétursborg, þann 7. október 1952 og verður því sjötugur í haust. Hann hefur viljað draga upp þá mynd af sér að hann sé grjótharður stjórnmálamaður og hefur oft látið mynda sig beran að ofan úti í náttúrunni. Þetta er gert til að draga upp þá mynd að hann sé algjör nagli.

En það er margt sem ekki er vitað um hann og það er nánast bannað að fjalla um einkalíf hans í rússneskum fjölmiðlum.

Vitað er að hann kvæntist Lyudmila Putina 1983 en þau kynntust þegar hann starfaði fyrir KGB. Þau eiga tvær dætur, Maria Vorontsova og Katerina Tikhonova. Þær láta lítið fyrir sér fara á opinberum vettvangi. Reuters segir að Katerina sé vísindamaður og hafi verið gift Kirill Shamalov, kaupsýslumanni, en þau skildu 2018. Shamalov tilheyrir þeirri elítu sem er í kringum Pútín og arðrænir rússnesku þjóðina.

Nánast ekkert er vitað um Maria sem lætur greinilega mjög lítið á sér bera.

Pútín á yngri árum.

Pútín staðfesti 2017 að hann eigi barnabarn en ekki er vitað hvor dóttirin á barnið eða hvort þau séu fleiri en eitt. Þetta sagði hann í heimildarmynd sem Oliver Stone gerði. Þegar hann var spurður hvort hann hitti barnabarnið oft sagðist hann því miður hitta það mjög sjaldan.

Orðrómur hefur verið uppi um að Pútín eigi þriðju dótturina en það hefur aldrei verið staðfest.

Pútín og Lyudmila skildu 2013 að sögn Washington Post. Þá voru orðrómar á kreiki um að Pútín ætti ástkonur og að hann hefði eignast barn með einni þeirra. Það var sagt vera stúlka og er hún sögð hafa lifað góðu lífi í skjóli föður síns. Meðal annars er hún sögð eiga íbúð í Monte Carlo sem er metin á sem svarar til tæplega 6.000 milljóna íslenskra króna. Þetta kom fram í Pandora skjölunum sem voru gerð opinber á síðasta ári.

Fregnir hafa borist af því að Pútín eigi miklar eignir sjálfur, þar á meðal höll við Svartahaf en þessu hefur hann alltaf neitað. Opinberlega eru eignir hans ekki miklar en New York Times segir að talið sé að hann hafi skotið um hundrað milljörðum dollara undan, peningum sem hafi í raun verið stolið af rússnesku þjóðinni.

Njósnarinn sem varð forseti

Eins og fyrr sagði varð Pútín yfirmaður FSB 1998 en FSB er arftaki KGB. Ári síðar varð hann forsætisráðherra. Þegar Boris Jeltsin, forseti, lést á gamlársdag 1999 varð Pútín forseti. Í mars 2000 var hann kosinn forseti og endurkjörinn 2004.

Þá mátti hann ekki sitja í embætti forseta lengur en tvö kjörtímabil í röð samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hann fór í kringum þetta árið 2008 og lét Dmitrij Medvedev taka við forsetaembættinu og varð sjálfur forsætisráðherra.

Á þessum tíma var farið að þrengja að lýðræðinu í Rússlandi því Pútín var byrjaður að herða tökin. Margir vöruðu við þróun mála en það stoðaði lítið.

Í mars 2012 var hann kosinn forseti til sex ára og 2018 var hann endurkjörinn en þá hlaut hann 77% atkvæða sem mörgun þótti ansi dularfullt.  2020 fékk hann breytingar á stjórnarskránni í gegn með umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu en þessar breytingar heimila honum að sitja sem forseti til 2036.

Pútín hefur sætt auknum þrýstingi innanlands síðustu ár. Má þar nefna að Aleksej Navalnyj hefur verið honum þyrnir í augum, viðbrögðin við heimsfaraldrinum hafa ekki verið góð og fólk hefur ítrekað safnast saman til mótmæla þrátt fyrir að sveitir Pútíns hafi tekið harkalega á mótmælendum.

FSB vakir yfir öllu og stjórnarandstaðan er ekki burðug vegna sífelldra ofsókna yfirvalda. Pútín hefur verið að herða tökin en kannski ekki eins mikið og hann vildi. Sumir sérfræðingar telja að stríðsreksturinn sé afleiðing þess að Pútín sé að missa þau heljartök sem hann hefur haft á Rússlandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund