B.T. hefur eftir honum að með því að ráðast inn í Úkraínu hafi Pútín til dæmis ýtt við Þjóðverjum sem hafa nú ákveðið að auka útgjöld sín til varnarmála mikið. Þeir ætla framvegis að eyða að lágmarki tveimur prósentum af vergri þjóðarframleiðslu í varnarmál og á þessu ári auka þeir útgjöld til varnarmála um 100 milljarða evra.
Jakobsen sagði að þetta þýði að Þýskaland verði nú svo öflugt á hernaðarsviðinu að landið geti í raun komið í veg fyrir alla drauma Pútíns um að ráðast á evrópskt NATO-ríki, það þurfi aðeins smávegis aðstoð frá Bandaríkjunum.
„Þetta er skýrt merki um að nú hafa Þjóðverjar einnig áttað sig á að Rússar eru hættulegir. Hugmyndir Pútíns um að það sé hægt að ræða við Þjóðverja af ró og yfirvegun eiga ekki lengur við,“ sagði Jakobsen.
Olafs Scholz, kanslari Þýskalands, tilkynnti um aukin framlög til varnarmála á aukafundi þýska sambandsþingsins í gær. „Pútín ætti ekki að vanmeta staðfestu okkar,“ sagði hann.
Eins og staðan er núna nema framlög Þýskalands til varnarmála 1,4% af vergri þjóðarframleiðslu en stefnt hafði verið á að þau yrðu komin í 2% á næsta áratug. En nú verður breyting á og framlögin verða 2% af vergri þjóðarframleiðslu nánast samstundis.
Þetta þýðir að Þjóðverjar munu verja meira fé til varnarmála en Rússar að sögn Jakobsen sem sagði að þetta þýði í raun að Þjóðverjar geti eins síns liðs borið sig saman við Rússa á hernaðarsviðinu.
„Þetta eru mjög skýr skilaboð til Pútíns. Maðurinn hefur ekki hugsað innrásina í Úkraínu til enda. Nú verður hann fyrir refsiaðgerðum og mikilli eflingu hersins,“ sagði hann.