fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Eyjan

Friðjón fer í framboð

Eyjan
Mánudaginn 28. febrúar 2022 15:52

mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðjón R. Friðjónsson, varaþingmaður og framkvæmdastjóri almannatengslafyrirtækisins KOM, tilkynnti nú rétt í þessu að hann gæfi kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer 18. og 19. mars næstkomandi.

Sækist Friðjón eftir öðru sæti á lista Sjálfstæðismanna í borginni. Fyrir hafa meðal annars þau Kjartan Magnússon, varaþingmaður flokksins og fyrrverandi borgarfulltrúi og Marta Guðjónsdóttir, núverandi borgarfulltrúi, gefið kost á sér í það sama sæti.

Í framboðstilkynningu sinni segir Friðjón að hefja þurfi framkvæmdir við Sundabraut strax, stöðva þurfi útþenslu borgarkerfisins og að huga þurfi að skólum og stöðu aldraðra í borginni. „Það þarf að taka rekstur borgarinnar til gagngerrar endurskoðunar. Ég tel að reynsla mín af rekstri eigin fyrirtækis muni nýtast vel í borgarstjórn. Við þurfum fólk í borgarstjórn sem hefur borgað laun, en ekki bara þegið,” segir Friðjón meðal annars í framboðstilkynningu sinni.

Tilkynninguna má sjá hér í heilu lagi.

Ég gef kost á mér til að taka þátt í þeirri breytingu sem ég held að sé nauðsynleg að verði í nálgun Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og stjórnun borgarinnar sjálfrar. Bæði þurfa að koma til breytt vinnubrögð og ný hugsun. Reykjavík hefur breyst og þróast á undanförnum árum og við þurfum að taka mið af þeim breytingum. Reykjavík á að vera nútímaleg og skemmtileg borg sem tekur mið af ólíkum þörfum. Einstrengingsháttur og yfirlæti núverandi meirihluta verður að linna og borgin þarf að taka sér þjónustumiðað viðhorf.

Reykjavík þarf að þróast og stækka, mannfjöldaþróun undanfarinna ára hefur verið höfuðborginni í óhag. Sveitarfélögin allt í kringum Reykjavík, allt frá Akranesi að Árborg og Reykjanesbæ, hafa nánast öll stækkað og eflst en mannfjöldaþróun í höfuðborginni verið undir fjölgun á landsvísu. Það er skýrasta vísbendingin um að einstrengingsleg þéttingarstefna borgarinnar vinnur gegn markmiðum sínum. Fólk finnur ekki húsnæði í Reykjavík og flytur annað. Þess vegna þarf að brjóta nýtt land undir ný hverfi, samhliða hófsamri þéttingu sem nýtir innviði eldri hverfa betur. Keldnaland, Úlfarsárdalur og Geldinganes eru ekki bara framtíðarbyggingarlönd borgarinnar, heldur svæði sem þarf að undirbúa strax til að vinda ofan af húsnæðisvandanum. Reykjavík er að missa frá sér fólk sem vill búa í sérbýli, eiga garð og yrkja hann. Við þurfum fjölbreyttari úrræði en lúxusíbúðir.

Það þarf að taka rekstur borgarinnar til gagngerrar endurskoðunnar. Ég tel að reynsla mín af rekstri eigin fyrirtækis muni nýtast vel í borgarstjórn. Við þurfum fólk í borgarstjórn sem hefur borgað laun, en ekki bara þegið. 

Hætta þarf stöðugum skatta- og gjaldahækkunum vinstri meirihlutans og afnema þarf innviðagjald borgarinnar sem hækkar íbúðarverð og þar af leiðandi fasteignaskatta.

Sundabraut strax!Sundabrautin er lykill að búsetu- og atvinnuþróun í Reykjavík og það þarf að flýta henni sem frekast er unnt. Umferðina í Reykjavík þarf að taka föstum tökum, laga það sem hægt er að laga með betri ljósastýringu og samgöngumannvirkjum þar sem skynsamlegt er að koma þeim við. Vandinn verður ekki leystur með því að bæta við akreinum heldur með skynsamlegum lausnum sem hægt er að nýta til framtíðar. Samhliða því þarf að fjölga atvinnutækifærum í austurborginni, til dæmis eru tækifæri í endurskipulagningu Skeifunnar og Ártúnshöfðans sem munu gera þau svæði eftirsóknarverðari búsetu- og atvinnusvæði.

Minni miðstýring – meira frelsi.Útþensla borgarkerfisins hefur algerlega afsannað að Reykjavík njóti nokkurrar stærðarhagkvæmni. Hún er mýta. Frekar ætti að efla sjálfstæði hverfaráða og þjónustustofnana eins og leikskóla og skóla til að taka sjálfstæðar ákvarðarnir í sem bestri sátt við nærsamfélagið. Þjónustukannanir sveitarfélaga sýna ítrekað að íbúar nágrannasveitarfélaganna eru mun sáttari við þjónustu sinna sveitarfélaga en Reykvíkingar. Í stað þess að bæta þjónustuna  hætti meirihlutinn í Reykjavík að taka þátt í slíkum þjónustukönnunum.

Staða aldraðraStaða aldraðra er eitt stærsta verkefni stjórnmálanna, hvort sem er í  landsmálum eða á sveitarstjórnarstiginu. Það er skylda borgarinnar að bjóða upp á aðstæður svo hægt sé að þróa fjölbreytt úrræði fyrir eldra fólk. Það þarf að gera meira en fjölga hjúkrunarrýmum, það þarf að byggja þjónustukjarna með ólíkum búsetulausnum eftir þörfum og aðstæðum svo fólk geti færst á milli þjónustustiga án þess að yfirgefa heimili sitt eða maka. 

Valfrelsi í skólum

Það þarf að standa vel á bak við og styðja sjálfstæða skóla rétt eins og borgarskóla. Valkostir eins og Hjallastefnan, Ísaksskóli og Landakotsskóli auðga og styrkja menntaframboð í borginni. Auka þarf sjálfstæði borgarskóla til að þróast því gæði fást ekki með miðstýringu og valdboði.

Íþróttafélög, æskulýðs- og tómstundastarf í borginni gegnir mikilvægu hlutverki, sérstaklega við aðlögun nýrra Íslendinga. Við eigum að styðja vel við slíka starfsemi og samþætta skólanum eftir fremsta megni.

Vegna alls ofangreinds og sannfæringar um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að þróa borgina til framtíðar gef ég kost á mér í 2. sæti á framboðslista Sjáflstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund