fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Vinstri grænir gegn grundvallaröryggishagsmunum Vesturlanda

Eyjan
Sunnudaginn 27. febrúar 2022 16:00

Hermaður gengur framhjá herflugvél sem skotin var niður yfir Kyiv - Mynd/EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Timothy Snyder, prófessor við Yale-háskóla í Connecticut í Bandaríkjunum, vitnar til Shakespeares í bók sinni On Tyranni (Um harðstjórn í íslenskri þýðingu) þegar hann gefur samtíma okkar einkunn: „The time is out of joint. O cursed spite,/That ever I was born to set it right!“ Öldin er úr lagi gengin og okkur hryllir við þeirri tilhugsun að þoka málum til betri vegar. Hamlet horfir upp á illmennið sölsa undir sig völd og á barmi örvæntingar finnur hann þörfina til að öðlast rótfestu í heimi á hverfanda hveli.

Áþekkar hugsanir sækja á milljónir manna um þessar mundir sem vöknuðu við vondan draum í liðinni viku: Hafin er í Evrópu mesti ófriður frá lokum síðari heimsstyrjaldar. 

Endalok endaloka sögunnar

Ógnin sem stafaði af alræðis- og harðstjórnaröflum virtist horfin í okkar heimshluta við fall Ráðstjórnarríkjanna og leppríkja þeirra í mið- og austurhluta álfunnar. Í þessu sambandi var stundum talað um „endalok sögunnar“ svo vísað sé til samnefndrar bókar Francis Fukuyama. Eftir fall kommúnismans gátu vestræn stjórnvöld einbeitt sér að því að sameina alþjóðakerfið, styrkja lýðræði á heimsvísu og efla frjáls heimsviðskipti. En líklega var þessi framtíðarsýn jafn útópísk og sú marxíska. Snyder kemst svo að orði (í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar):

„Meðan enn ríkti samkeppni milli hins kommúníska og kapitalíska kerfis, og meðan minningin um fasisma og nasisma lifði enn, þurftu Bandaríkjamenn að gefa sögunni gaum og varðveita hugtök sem gerðu þeim kleift að ímynda sér ólíka framtíðarmöguleika.“

Bókin er rituð fyrir bandarískan markað en vitaskuld hefði allt eins mátt skrifa þarna Vesturlandabúar í stað Bandaríkjamanna. Eftir fall Berlínarmúrsins fannst flestum sagan eiga lítið erindi við sig, hið vestræna frjálslynda lýðræði hefði sigrað og engin ástæða til að velta sér upp úr fortíðinni. Við blasir að við höfum sofnað á verðinum. Á Vesturlöndum hefur öfgaflokkum til hægri og vinstri vaxið ásmegin og engan þarf að undra að ýmsir þeirra hafa skýr tengsl við harðstjórnaröflin innan Kremlarmúra. Þar á meðal má nefna Rassemblement national í Frakklandi, flokk Marine Le Pen, sem þegið hefur lánsfé frá rússneskum bönkum eða Die Linke í Þýskalandi en ýmsir flokksmenn þar hafa haft samúð með málstað Kremlverja (þó svo að þeir reyni nú að þvo hendur sínar af slíku daðri, sbr. ræðu þingflokksformanns þeirra, Dietmar Bartsch, á föstudaginn var þar sem hann sagði orðrétt: „Der Aggressor heißt Wladimir Putin“).

Alltof fáir í okkar samtíma huga að grunngildum vestræns lýðræðis þar sem opin skoðanaskipti eiga sér stað, borin er virðing fyrir andstæðum sjónarmiðum, samhliða virðingu fyrir mannlegri reisn, trú á gildi frjáls markaðar og takmörkun ríkisvalds. Það er að stórum hluta vegna þessa tómlætis sem öfgaöflum vex ásmegin.

Sjálfstæðismenn hófu formann VG til æðstu metorða

Deilur um grundvallarhugmyndafræði, lýðræði annars vegar og alræðishugmyndir (og daður við slík öfl) hins vegar, gerði það að verkum að sjálfstæðismenn og sósíalistar störfuðu ekki saman í ríkisstjórn á Íslandi í heil 70 ár eða frá 1947 til 2017. Aldrei kom til álita að sósíalisti yrði utanríkisráðherra og formaður flokks þeirra fékk heldur aldrei að vera forsætisráðherra. — Ekki fyrr en sjálfstæðismenn ákváðu að hefja formann Vinstri grænna til æðstu metorða eftir kosningarnar 2017. Raunar líður þeim svo vel í faðmi sósíalista að þeir ákváðu að endurnýja heit sín. Í nálega öllum löndum sem búa við samsteypustjórnir er það forystumaður stærsta stjórnarflokksins sem gegnir embætti forsætisráðherra. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur aftur á móti staðið svo veikum fótum frá því að stjórn hans sprakk haustið 2017 að ekki hefur komið til álita að hann sæti við enda ríkisstjórnarborðsins. — Nei, formaður sósíalista skal það vera.

Í sáttmála endurnýjaðrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur rekst margt á annars horn. Þar er slegið í og úr og þegar kemur að kaflanum að varnarmál er ekki minnst einu orði á Atlantshafsbandalagið og varnarsamninginn við Bandaríkin sem öryggi okkar hvílir á. Allt er þetta gert að tillitssemi við Vinstri græna sem eru andvígir aðild Íslands að Atlantshafsbandandaginu svo sem kunnugt er.

Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrv. utanríkisráðherra, talaði enga tæpitungu þegar rætt var um frekari uppbyggingu varnarmannvirkja hér á landi á síðasta kjörtímabili — sér í lagi hafnarframkvæmdir í Helguvík. Menn skyldu ekki gleyma að varnarsamningurinn við Bandaríkin væri annað og meira en viljayfirlýsing. Hann fæli í sér skuldbindingu af Íslands hálfu um tiltekin mannvirki sem gögnuðust við varnir landsins. Katrín Jakobsdóttir og flokkur hennar lögðust gegn málinu og í Morgunblaðinu 15. maí 2020 komst hún svo að orði að sér fyndist „óviðeigandi“ að fyrirhuguðum framkvæmdum væri „blandað inn í efnahagsaðgerðir stjórnvalda“ þar sem málið sneri að hennar mati að „hernaðaruppbyggingu“ (um þær mundir mældist atvinnuleysi á Suðurnesjum 28%). Hvað sem því líður hafa undanfarin misseri átt sér stað miklar framkvæmdir á varnarsvæðinu en þar er um að ræða viðhald flugbrauta, byggingu flugskýla, endurnýjun loftvarnarkerfis, uppfærslur á ratsjárstöðvum og ýmislegt fleira.

Lítum enn til sögunnar

„Vantrú mín, ég vil segja ógeð, á öllu samstarfi við þá átti sér djúpar rætur, og olli því löng og ömurleg reynsla af óheilindum þeirra og vinnubrögðum. Ég taldi því allt að því ógerlegt að rugla saman reitum við þá, enda háskalegt og vart sæmandi fyrir lýðræðisflokk eins og Alþýðuflokkinn.“

Þannig komst Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins og forsætisráðherra 1947–1949, að orði í endurminningum sínum þegar talið barst að sósíalistum — sem lengi fylgdu línunni frá Mosvku. Alþýðuflokkurinn tók skýra afstöðu með aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu — líkt og systurflokkarnir í Noregi og Danmörku. Þeir horfðu upp á það hvernig leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar í austurhluta álfunnar voru pyndaðir og myrtir einn af öðrum eftir valdatöku kommúnista. Fyrir íslenskum sósíaldemókrötum, jafnt sem sjálfstæðismönnum, voru átök kalda stríðsins upp á líf og dauða, annað hvort fylktu menn liði með frjálsum þjóðum ellegar yrði boðið heim hættu á kúgun og helsi. Framsóknarflokkurinn var aftur á móti lengi klofinn í afstöðu sinni til varnarmála og lék jafnvel tveimur skjöldum.

Og ef við lítum til hinna norrænu ríkjanna þessi dægrin þá tala æ fleiri sænskir stjórnmálamenn afdráttarlaust um inngöngu Svía í Atlantshafsbandalagið. Annie Lööf, formaður sænska Miðflokksins sagði í viðtali við sænska ríkissjónvarpið í vikunni sem leið að hún vildi ekki að Svíþjóð yrði sem „buffertzon mellen ett aggressivt Ryssland och andra västliga demokratier“. Styrkja þyrfti varnir Svíþjóðar með inngöngu í Atlantshafsbandalagið — enda væri það vísasti vegurinn til að viðhalda friði og öryggi.

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, sagði á dögunum að æsktu Svíar og Finnar inngöngu í Atlantshafsbandalagið brygðust Rússar við — án þess að útlista nánar hver viðbrögðin yrðu og þá komst Maria Zacharova, talskona Rússlandsstjórnar, svo að orði að gengju Svíar og Finnar í Atlantshafsbandalagið gæti það haft í för með sér hvort tveggja í senn hernaðarlegar og stjórnmálalegar afleiðingar (s. „ kan leda till militära och politiska konsekvenser“).

Blaðamaður Helsingin Sanomat spurði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, á blaðamannafundi á fimmtudaginn var hver væru skilaboð bandalagsins til samstarfsríkja þess, Finnlands og Svíþjóðar, við ríkjandi aðstæður og hversu raunhæf innganga í bandalagið væri nú á slíkum háskatímum. Stoltenberg gat þess í svari sínu að Finnar og Svíar hefðu lagt á það áherslu að Atlantshafsbandalagið samþykkti engin þau skilyrði Rússa sem fælu í sér takmörkun á stækkun bandalagsins og dró fram mikilvægi samstarfs Finna og Svía við NATO en fulltrúum Svía og Finna hefði meðal annars verið boðið til fundar Atlantshafsbandalagsins sem fram fór degi síðar.

Það sjá nefnilega allir sem vilja sjá að Vladimir Pútín verður ekki stöðvaður með efnahagsþvingunum. Ekkert getur haldið aftur af frekari innrásum úr austri en öflugur varnarviðbúnaður. Ég gerði á dögunum viðtal Die Welt við Önnu Applebaum, sérfræðings í málefnum Austur-Evrópu, að umtalsefni hér á þessum vettvangi en hún leggur á það áherslu að vilji Vesturlandabúar standa vörð um væstræn gildi, fullveldi, lýðræði og friðsamlegt samfélag þá byði skyldan þeim að aðstoða Úkraínumenn við varnir sínar svo þær héldu aftur af innrás Pútíns. Þetta yrði gert með því að senda stjórnvöldum í Kænugarði frekari vopn og önnur hergögn. Applebaum orðaði það svo að hver sá sem hafnaði auknum vígbúnaði Úkraínu væri þar með hlynntur stríði en stjórnvöld ýmissa öflugra Evrópuríkja hafa þráast við að senda Úkraínumönnum hergögn og á það til að mynda við um Þýskalandsstjórn. 

Og hvað Íslendinga áhrærir þá er okkar einasta vörn fólgin í aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningnum við Bandaríkin og samstarfi við ríki Evrópusambandsins. Danska ríkisstjórnin kynnti á dögunum nýjar áherslur í varnarmálum sem fela meðal annars í sér mögulega viðveru bandarísks herliðs, en líka aukið samstarf við önnur ríki NATO og Evrópusambandsríkin. Á sama tíma hafnar forystuflokkur ríkisstjórnar Íslands aðild að Atlantshafsbandalaginu og situr fastur í afdankaðri útópíu. Á jafn viðsjárverðum tímum og nú ætti flestum að vera ljós hversu glórulaus afstaða Vinstri grænna er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu