ESB hefur unnið að undirbúningi refsiaðgerða síðustu tvo mánuði ef til þess kæmi að Rússar réðust á Úkraínu. Reiknað er með að leiðtogar aðildarríkjanna samþykki þessar aðgerðir á aukafundi í kvöld.
Markmiðið með aðgerðunum verður að veikja grunnstoðir rússnesks efnahagslífs og ná til fólks sem stendur Pútín nærri og styður hann.
Ursula von der Leyen, formaður Framkvæmdastjórnarinnar, sagði í morgun að með aðgerðunum verði lykilgeirar í rússnesku efnahagslífi illa úti. Lokað verði fyrir aðgang þeirra að tækni og mörkuðum. Þetta muni veikja efnahagsgrunn Rússlands og möguleika landsins á að nútímavæðast. Að auki verða rússneskar eignir í ESB frystar og rússneskir bankar munu ekki fá aðgang að evrópskum fjármálamörkuðum. „Aðgerðunum er ætlað að koma í veg fyrir möguleika Kreml á að fjármagna stríðið,“ sagði hún.
Nákvæmt innihald aðgerðanna er enn leynilegt en verður væntanlega kynnt í kvöld að fundi leiðtoga aðildarríkjanna loknum.
Unnið er að því að samhæfa aðgerðirnar við aðgerðir Bandaríkjanna, Bretlands, Ástralíu og Japan.