Það hefur legið í loftinu vikum saman að Rússar hygðust ráðast á Úkraínu og á Vesturlöndum lögðu fáir trúnað á ítrekuð ummæli Pútín og annarra rússneskra ráðamanna um að ekki stæði til að ráðast á Úkraínu. Uppbygging herliðs þeirra við úkraínsku landamærin sagði aðra sögu.
Aðgerðir rússneska hersins hófust síðan í nótt og segja úkraínskir embættismenn að loftárásir hafi verið gerðar, eldflaugaárásir og stórskotaliði var beitt. Helstu skotmörkin voru hernaðarmannvirki í Úkraínu og landamærastöðvar.
Sprengingar og skothríð heyrðust meðal annars í Odessa, Mariupol, Kharkiv, Dnipro og höfuðborginni Kiev.
Ekki liggur fyrir hvert lokamarkmið Rússa er en Pútín sagði í ræðu sinni í nótt að ekki stæði til að hernema úkraínsk landsvæði og ekki standi til að beita valdi til að þvinga þjóðina til einhvers
Volodymyr Zelenskiy, forseti Úkraínu, tilkynnti í kjölfar fyrstu árásanna á Úkraínu að herlög hefðu tekið gildi í landinu.
Um klukkan 7 í morgun bárust fregnir af árásum aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, sem njóta stuðnings Rússa, á úkraínska hermenn.
Óstaðfestar fregnir hafa borist af því að rússneskir hermenn séu nú komnir nærri borginni Kharkiv.
Í kjölfar árásar Rússa var lofthelginni yfir Úkraínu lokað fyrir allri almennri flugumferð.
Úkraínskir embættismenn tilkynntu í morgun að ekki sé hægt að fljúga innanlands vegna árása Rússa nærri aðalflugvellinum í Kiev. Rússneski herinn segist beina árásum sínum að úkraínskum herflugvöllum og herstöðvum en ekki þéttbýli.
Hér er hægt að fylgjast með uppfærðum fréttum frá gangi mála.
Innrás Rússa í Úkraínu hafin – Rússar stefna á Mariupol – Frétt í framvindu