Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Aðalsteini Á. Baldurssyni, formanni Framsýnar, að hann sjái ekki betur en verið sé að hrekja venjulegt fólk úr stjórnum lífeyrissjóðanna.
Morgunblaðið segir að á vefsíðu Framsýnar komi fram mjög erfitt sé að fá sjóðfélaga í stéttarfélögunum til að taka þátt í stjórnunarstörfum Lífeyrissjóðsins Stapa þar sem Fjármálaeftirlitið virðist sífellt vera að herða hæfnikröfur til stjórnarmanna. Segir að miðað við þróun síðustu ára virðist eingöngu vera horft til háskólamenntunar þegar Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort stjórnarmenn skuli gangast undir munnlegt hæfnismat.
Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skulu stjórnarmenn „búa yfir nægri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt,“ en ekki er tiltekið að þeir þurfi að hafa lokið háskólaprófi.
Morgunblaðið hefur eftir Aðalsteini að kallað hafi verið eftir að sjóðfélagar fjalli sjálfir um mál sín í stjórnum lífeyrissjóða og þurfi ekki að hafa prófgráður í fjármálastjórnun til þess, almenn og víðtæk þekking á starfsemi sjóðanna eigi að duga.