Í um fimm mínútna ræðu hvatti hann Rússa til að ráðast ekki inn í Úkraínu og líkti málinu við nýlendutímann í Afríku og hvernig ríkin í álfunni tókust á við sjálfstæði í kjölfar brotthvarfs nýlenduþjóðanna.
Ræðan vakti mikla athygli og hefur verið mikið dreift á samfélagsmiðlum.
„Kenía og næstum öll Afríkuríki urðu til við hrun heimsveldanna. Við drógum ekki upp landamærin okkar. Þau voru dregin upp í fjarlægum höfuðborgum eins og Lundúnum, París og Lissabon án þess að nokkuð væri hugsað um gömlu þjóðirnar sem þau skildu að,“ sagði hann og vísaði þar til raka Rússa um að þeir eigi kröfu á yfirráðum yfir hlutum af úkraínsku landsvæði.
If you're gonna listen to any speech about #Ukraine 🇺🇦, let it be this one.
The Kenya ambassador to the UNSC perfectly explains how people across Africa understand Ukraine, and what the Kremlin's acts of aggression mean in our post-colonial world. pic.twitter.com/0gTuAni0DC
— Thomas van Linge (@ThomasVLinge) February 22, 2022
Úkraína varð til 1991 sem frjálst land eftir hrun Sovétríkjanna. Sögulega séð hefur landið verið meira og minna sjálfstætt, hluti af Rússlandi og öðrum löndum, til dæmis Póllandi. Kimani benti á að Afríkuríkin hafi valið að „sætta okkur við þau landamæri sem við erfðum“ ólíkt Rússlandi.
„Ef við hefðum valið að mynda ríki út frá þjóðerni, kynþætti eða trúarbrögðum, þegar við urðum sjálfstæða á nýjan leik, hefði það leitt til blóðugra styrjalda áratugum saman. Þess í stað ákváðum við að horfa fram á veginn,“ sagði hann.
Hann sagði rétt að sú staða geti komið upp að tveir þjóðernishópar, sem eitt sinn voru einn, finni fyrir þörf til að sameinast þrátt fyrir að landamæri skilji þá að. En hann varaði eindregið við að það sé gert með valdbeitingu. „Það er eðlilegt og skiljanlegt. Hver vill ekki sameinast upphafi sínu á nýjan leik og finna sameiginlegan tilgang með því? En við verðum að ljúka upprisu okkar frá leifum dauðra heimsvelda á þann veg að það sendi okkur ekki aftur í nýja tíma yfirráða og kúgunar,“ sagði hann einnig.