Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Degi að ríflega tvöföldun hagnaðar Landsvirkjunar á milli ára undirstriki að salan á hlut borgarinnar hafi verið hneyksli.
Landsvirkjun hagnaðist um 30 milljarða á síðasta ári og lagt er til að 15 milljarðar verði greiddir í arð. Ef borgin ætti enn sinn hlut í virkjuninni fengi hún 6-7 milljarða í sinn hlut en hún átti 44,5% hlut í fyrirtækinu. Akureyrarbær átti 5,5% og hefði því fengið um 750 milljónir í sinn hlut.
„Sala meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á 46 prósenta hluta Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun var algert hneyksli. Verðið var allt of lágt,” er haft eftir Degi sem sagðist hafa gagnrýnt söluna harðlega á sínum tíma og nú sé öllum ljóst að sú gagnrýni hafi verið réttmæt. „Borgin fékk innan við 30 milljarða í sinn hlut fyrir Landsvirkjun á sínum tíma sem er mörg hundruð milljarða virði,“ er haft eftir honum.
„Þetta er eitt versta dæmið og sannarlega það stærsta um fjármálaafglöp á sveitarstjórnarstigi á Íslandi,“ sagði hann einnig og bætti við að Sjálfstæðisflokknum bæri skylda til að gera málið upp og biðjast afsökunar.
Oddur Helgi Halldórsson, oddviti L-listans á Akureyri, var eini bæjarfulltrúinn sem greiddi atkvæði gegn sölunni á sínum tíma. Hann segir að salan hafi verið dýrustu mistökin í stjórnun Akureyrarbæjar frá upphafi.
Nánar er hægt að lesa um málið á vef Fréttablaðsins.