Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, steig upp í pontu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær og spurði Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hvað henni þætti um mál fjögurra blaðamanna sem boðaðir hafa verið til skýrslutöku vegna meintra brota gegn friðhelgi einkalífs.
Katrín svaraði því til að henni hafi líkt og mörgum verið brugðið þegar fregnir bárust af málinu en hún treysti því þó að lögregla fari eftir þeim lögum sem í landinu gilda
„Ég treysti því líka að lögreglan sé mjög meðvituð um það að allar rannsóknaraðgerðir sem beinast gegn fjölmiðlum geti haft fælingaráhrif og því eigi ekki að fara af stað nema ríkt tilefni sé til og meðalhófs gætt.“
Mál fjórmenningana hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna viku og því ætti ekki að undra að það hafi ratað inn í óundirbúinn fyrirspurnatíma Alþingis, en þangað rata gjarnan mál sem mikið hefur farið fyrir í þjóðfélagsumræðunni.
Þó virðist sem að sá er ritar ritstjórnardálkinn Staksteina í Morgunblaðinu ekki það hrifinn af fyrirspurn Halldóru. Í Staksteinum dagsins segir:
„Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær lét Halldóra Mogensen pírati eins og hún hefði miklar áhyggjur af íslenskum fjölmiðlum og lagði í því sambandi út af lögreglurannsókn á Norðurlandi. Spurningum sínum beindi Halldóra til forsætisráðherra sem sagðist vilja styðja og styrkja fjölmiðla en að lítið hefði verið gefið upp um umrædda rannsókn og að hún treysti því að lögreglan væri meðvituð um mikilvægi fjölmiðla.“
Staksteinaritari bendir á að Halldóra hafi einnig minnst á í fyrirspurn sinni að stöðugildum innan fjölmiðla hafi fjölgað mikið á undanförnum árum.
„Halldóra vék þá að því að frá árinu 2018 hefði „stöðugildum á fjölmiðlum fækkað um vel rúmlega helming. Þetta er sá tími sem hæstvirtur ráðherra hefur setið á stóli forsætisráðherra.“ Þetta sagði hún gríðarlegan atgervisflótta úr stétt blaðamanna og virtist telja skýringuna aðgerðaleysi forsætisráðherra.“
Veltir Staksteinaritari því fyrir sér hvað Píratar hafi gert undanfarin ár til að styðja við störf blaðamanna.
„En hvað hafa píratar gert til að styðja við fjölmiðla og reyna að stuðla að því að fleiri blaðamenn séu við störf?
Þeir hafa ekki svo vitað sé gert neitt í þeim efnum. Þeir hafa verið áhugasamir um að styðja litla miðla sem hafa sárafáa starfandi blaðamenn og stunda ekki almenn fréttaskrif en sinna þess í stað tilteknum hugðarefnum. Og píratar vilja veg ríkisfjölmiðilsins sem mestan og þurfa svo sem ekki að hafa áhyggjur af fækkun á þeim bænum, þar er nóg af starfsfólki enda enginn skortur á fé.
Það er vægast sagt holur hljómur í yfirlýstum áhyggjum pírata af stöðu frjálsra fjölmiðla. Þær virðast þjóna þeim tilgangi einum að slá pólitískar keilur.“