Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að ekki liggi fyrir hvort það takist að mæta eftirspurn í ljósi hraðra breytinga vegna faraldursins og alvarlegrar fjárhagsstöðu ferðaþjónustufyrirtækja. Nú þegar eru ferðamenn farnir að reka sig á að erfitt getur verið að finna laust hótelherbergi. Ekki endilega vegna þess að öll herbergi séu full, heldur vegna þess að það vantar starfsfólk.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði að þetta sé eitt þeirra vandamála sem upp geti komið í keðjunni. Hann sagði ljóst að vandamál muni koma upp þegar líður að sumri. Spurningin sé hversu alvarleg þau verða.
Hann sagði að erfitt sé að fá fólk til starfa í greininni og það sé ekki vandi sem er einskorðaður við Ísland. Margir sem störfuðu við ferðaþjónustu fyrir heimsfaraldurinn séu farnir í aðrar greinar og snúi ekki svo glatt til baka.
Hann sagði augljóst að stjórnvöld þurfi að koma að málum og byggja skapalón utan um skuldaúrlausn lítilla og meðalstórra fyrirtækja, í líkingu við það sem var gert eftir bankahrunið 2010.