fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Eyjan

Björn Jón skrifar – Umferðarteppustjórnmál

Eyjan
Sunnudaginn 20. febrúar 2022 19:00

Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég veit um „leynileið“ hérna í gegnum hverfið — þá losnum við undan þessum erfiðu gatnamótum,“ sagði leigubílstjóri nokkur við mig í nýliðinni viku þar sem hann ók mér um borgina. Við áttum síðan ágætt spjall um umferðarkerfið sem allir vita að er fyrir löngu sprungið. Umræddur leigubílstjóri vildi gjarnan fá nýjan meirihluta í borgarstjórn sem tæki á vandanum því ekki hygðist núverandi meirihluti aðhafast neitt til að greiða fyrir umferð bíla.

Eins og stendur má þó telja hæpið að nokkur grundvallarbreyting verði á stjórnun borgarinnar eftir kosningarnar 14. maí nk. Flumbrugangurinn í framboðsmálum sjálfstæðismanna hefur ekki beinlínis orðið til að auka tiltrú á þeirra flokki en samkvæmt könnun Maskínu sem fréttastofa Stöðvar 2 birti 11. febrúar myndu sjálfstæðismenn missa tvo borgarfulltrúa yrði kosið nú. Flokkur borgarstjórans bætir við sig lítilsháttar fylgi samkvæmt sömu könnun. Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður komst svo að orði um vanda Sjálfstæðisflokksins í forystugrein Fréttablaðsins á föstudaginn var:

„Þótt baráttan við Dag B. Eggertsson og félaga virðist fyrir fram töpuð þá væri mannsbragur á því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að bretta upp ermar og hella sér galvaskur í slaginn. Sú augljósa leið hefur af einhverjum ástæðum ekki verið valin og í stað þess að drífa sig af stað hefur flokkurinn kosið að fara í hálfgerðar  felur. Það er nánast eins og hann telji sig ekki eiga neitt sérstakt erindi við borgarbúa.“

Hún kvaðst að auki telja hæpið að kjósendur tækju „undir sig stökk“ og hlypu „fagnandi í faðm flokks sem virðist hafa litla sem enga trú á sjálfum sér þegar kemur að borgarmálum“.

Auðvitað er alltof snemmt að spá í úrslit borgarstjórnarkosninganna — fæstir flokkar hafa enn stillt upp listum. Og þrátt fyrir persónuvinsældir Dags B. Eggertssonar þá er líka leitun að stjórnmálamanni sem vekur jafnmikið óþol hjá kjósendum. Þetta minnir um margt á Davíð Oddsson sem jafnan var efstur á lista yfir vinsælasta stjórnmálmanninn — en var líka venjulega efstur á blaði yfir þá sem minnstrar hylli nutu.

Þrákelkni borgaryfirvalda

Umferðarmálin eru eitt helsta umkvörtunarefni borgarbúa, líkt og leigubifreiðastjórans sem ég nefndi að framan. Sífelldar tafir á helstu stofnbrautum gera það að verkum að umferðin leitar inn í nálæg íbúðahverfi. Í stað þess að greiða fyrir umferðinni hefur meirihluti borgarstjórnar viljað hægja á henni og leitun er að borg á stærð við Reykjavík með jafnmiklar umferðartafir.

TomTom er fyrirtæki sem framleiðir leiðsögutæki og safnar upplýsingum um ástand umferðar víðs vegar um heiminn. Reykjavík er á lista TomTom með tafastuðulinn 17%. Ökuferðir sem taka tíu mínútur í frjálsu flæði umferðar taka þá að meðaltali 11,7 mínútur. Neðarlega á lista TomTom eru nokkrar bandarískar bílaborgir með tafastuðul á bilinu 9–12%. Íbúafjöldi þeirra er á bilinu frá 600 þúsund upp í tvær milljónir. Ef litið er til borga vestanhafs af svipaðri stærð og Reykjavík (og raunar mun fjölmennari líka) þá gengur umferðin mun greiðlegar fyrir sig þar en hér og skýringin er einföld: Verulega hefur skort á nauðsynlegar framkvæmdir á þjóðvegum innan borgarmarkanna.

Staðan er einfaldlega sú að borgaryfirvöld hafa ekki kært sig um framkvæmdir og til að mynda ítrekað lagst gegn hugmyndum um mislæg gatnamót. Sjálfur á ég erfitt með að skilja þrákelkni borgaryfirvalda í þessu efni þegar kostir mislægra gatnamót blasa við en með þeim má bæta umferðarflæði stórkostlega og um leið afstýra slysum.

Byggjum brýr

Líklega yrðu brýr á gatnamótum Miklubrautar við  Kringlumýrarbraut, Háaleitisbraut og Grensásveg einhver þjóðhagslega hagkvæmustu samgöngumannvirki landsins. Sama má segja um mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, sem eru tiltölulega einföld framkvæmd, en eins og allir þekkja eru umferðartafir á Sæbraut nú svo miklar að bílalestin nær á álagstímum allt innfyrir Klepp.

Fleiri framkvæmdir yrðu til að auka framleiðslugetu hagkerfisins og má þar nefna Sundabraut. Þar með yrði ferðatími vestur á land styttur, sér í lagi upp á Akranes og inn í Grundartangahöfn. Með Sundabraut sköpuðust líka mikil tækifæri til uppbyggingar á Gufunesi, Geldinganesi og Álfsnesi. Á þessum nesjum er mikið vannýtt landsvæði en vegtengingar skortir. Borgaryfirvöld hafa ekki sýnt í verki vilja til að þessi brýna framkvæmd geti orðið að veruleika.

Bent hefur verið á að hæglega megi leggja Sundabraut í einkaframkvæmd og sömu sögu er að segja af brúarmannvirki yfir utanverðan Skerjafjörð, í framhaldi af Suðurgötu og yfir á Álftanes, sem ég hef leyft mér að kalla Skerjabraut. Nú eru uppi áform um brú milli Kársness og Nauthólsvíkur sem verður eingöngu ætluð strætisvögnum og hjólandi og gangandi og mun því litlu breyta.

Alvöru brú yfir Skerjafjörðinn myndi aftur á móti skapa hringtengingu á Stór-Reykjavíkursvæðinu — tengja stóru íbúðasvæðin í Garðabæ og Hafnarfirði við atvinnusvæðin miðsvæðis í Reykjavík. Skerjabraut myndi einnig létta verulega á Miklubraut og Kringlumýrarbraut sem eru fyrir löngu sprungnar.

Óskandi væri að alvöru lausnir í umferðarmálum Stór-Reykjavíkursvæðisins kæmust á dagskrá enda um að ræða eitt stærsta hagsmunamál samtímans. Eins og sakir standa verður þó að teljast afar ólíklegt að nokkuð markvert verði aðhafst næstu árin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund