Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, freistar þess nú að fá að leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík í komandi borgarstjórakosningum. Hún telur að fjármál borgarinnar séu í miklum ólestri og að þar vegi launakostnaður þungt. Nái Hildur kjöri sem næsti borgarstjóri ætlar hún að láta gera fjármála- og stjórnkerfisúttekt í borginni. Þetta kom fram í pistli sem hún ritaði í Morgunblaðinu í gær.
„Staðreyndin er því miður sú að fjármál Reykjavíkurborgar hafa um langa hríð verið í ólestri. Þrátt fyrir stöðugan tekjuvöxt og útsvar í lögleyfðu hámarki standa tekjur borgarinnar ekki undir kjarnarekstri.“
Hildur segir að núverandi meirihluti í borginni hafi leitað margra leiða til að „stoppa í gatið“.
„Annars vegar með arðgreiðslum úr Orkuveitunni – í stað þess að lækka gjaldskrár – en hins vegar aukinni lántöku. Heildarskuldir borgarinnar hafa vaxið úr 299 milljörðum í 400 milljarða á kjörtímabilinu. Það samsvarar um 12 milljóna skuldsetningu á hverja vísitölufjölskyldu í borginni. Þessi aukna skuldsetning er í takt við þróun undangenginna ára.“
Núverandi fyrirkomulag – að halda borginni gangandi með skuldsetningu og arðgreiðslum úr fyrirtækjum í almannaeigu – geti ekki gengið upp til lengdar. Dagurinn komi þar sem skuldir þarf að greiða.
Ekki gefur Hildur heldur mikið fyrir hugmyndir borgarfulltrúa Viðreisnar um sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða.
„Nú síðast hafa fulltrúar Viðreisnar slegið sig til riddara með yfirlýsingum um söluferli Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Sannarlega þarf borgin að draga sig úr samkeppnisrekstri. Malbikunarstöðin hefur hins vegar verið eyðilögð sem söluvara með fordæmalausu klúðri í lóðamálum félagsins. Eina raunhæfa aðgerðin er hugsanlega að hætta rekstri og selja tæki og tól á markaði.“
Þar að auki geti þessi sala lítið slegið á stöðuna í fjármálum borgarinnar og betra væri að nýta Ljósleiðarann til slíks.
„Fremur mætti beina sjónum að sölu Ljósleiðarans, enda varla hlutverk borgarinnar að sjá íbúum fyrir nettengingu sem markaðurinn er fullfær um að bjóða! Enn síður er það hlutverk borgarinnar að sjá íbúum annarra sveitarfélaga fyrir ljósleiðara.“
Hildur segir að Degi B. Eggertssyni sé tamt að skreyta sig með stórum hugmyndum og vissulega sé nauðsynlegt að hafa framtíðarsýn. Það þurfi þó líka að horfa raunsætt á stöðuna og muna eftir grundvallarhlutverki borgarinnar.
„Störfum á vegum borgarinnar hefur fjölgað um 20% á kjörtímabilinu, og vegur launakostnaður þyngst í framúrkeyrslu rekstraráætlunar. Hlutfall borgarstarfsmanna af vinnandi fólki í borginni er það langsamlega hæsta á höfuðborgarsvæðinu. Fjölgun opinberra skrifstofustarfa hefur borgarstjóri réttlætt sem efnahagsaðgerð – borgin skapi störf í heimsfaraldri. Það er sérkennileg áhersla enda eðlilegra að styðja myndarlega við atvinnulíf svo verja megi störf og skapa ný – styðja við frumkvæði og framtak með lægri álögum og sveigjanlegri stjórnsýslu.“
Hildur segir það ekki hlutverk sveitarfélags að „skapa störf án tilgangs“ heldur sé það hlutverk sveitarfélaga að veita íbúum þess öfluga grunnþjónustu.
„Þessu virðist borgarstjóri hafa gleymt. Leikskólamál eru í ólestri, húsnæðisskorturinn áþreifanlegur og samgönguvandinn fer vaxandi. Í borgina skortir öfluga innviði svo tryggja megi öfluga þjónustu og frjálsa valkosti.“
Hildur telur að það verði ekki hægt til lengdar að reka borgina á sjálfstýringu og hún geti ekki vaxið án þess að henni sé veitt aðhald. Til þess þurfi aga og eins þurfi að fara vel með fjármuni og muna eftir grundvallarhlutverk borgarinnar.
„Við eigum ekki að taka að okkur verkefni sem hafa þann eina tilgang að útvega stjórnmálamönnum skotsilfur.
Borgarstjórn á að veita borgurunum nauðsynlega þjónustu, á sem hagkvæmastan hátt, og með þeim hætti að velsæld komandi kynslóða sé ekki teflt í tvísýnu.
Ég sækist eftir því að verða borgarstjóri. Nái ég kjöri mun ég fyrirskipa fjármála- og stjórnkerfisúttekt í borginni sem unnin verður af færustu sérfræðingum. Leitað verði leiða til að einfalda stjórnkerfið, hagræða og auka skilvirkni. Það verður forgangsmál – enda traustur fjárhagur undirstaða framúrskarandi þjónustu.“