fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Eyjan

Bjarni gefur lítið fyrir gagnrýnina og sendir væna pillu – „Áhorfendur horfa á fréttamenn taka viðtöl við fréttamenn um mikilvægi fréttamanna“

Eyjan
Fimmtudaginn 17. febrúar 2022 18:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, gefur lítið út í þá gagnrýni sem hann hefur fengið sökum færslu sinnar á Facebook á þriðjudaginn þar sem hann velti fyrir sér máli fjögurra blaðamanna sem hafa verið boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglu vegna fréttaflutnings þeirra um skæruliðadeild Samherja. 

Bjarni stendur við þau ummæli sín að fréttaflutningur af málinu hafi einkennst af ofsa sem ekki sé innistæða fyrir á þessu stigi og þar að auki gagnrýnir hann tengsl RÚV við stéttarfélög fjölmiðlamanna sem og tengsl Blaðamannafélagsins við einn af fjórmenningunum sem hlotið hafa stöðu sakbornings í málinu. 

Harðlega gagnrýndur

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarna tvo daga fyrir ummæli hans um  þá ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi eystra að boða fjóra blaða- og fréttamenn til yfirheyrslu og veita þeim stöðu sakborninga. En umrætt mál varðar stolinn síma frá skipstjóranum Páli Steingrímssyni, en gögn úr símanum urðu grundvöllur afhjúpunar á svonefndri „skæruliðadeild“ Samherja sem beitti sér að hörku gegn íslenskum fjölmiðlamönnum sem höfðu unnið að fréttaflutningi um Samherjamálið.

Í Facebook-færslu fjármálaráðherrans spurði hann hvort að fjölmiðlamenn væru of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar? Þá spurði hann ennfremur hvort það gæti talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að taka skýrslu af fréttamönnum? Velti Bjarni því einnig fyrir sér hvort allir væru jafnir fyrir fjölmiðlum, þar sem umfjöllun fjölmiðla um þetta mál væri gífurlega ólíkt hefðbundnum fréttaflutningi um skýrslutökur grunaðra manna.

Færslan vakti hörð viðbrögð. Meðal annars hefur verið bent á að það sé hreinlega lygilegt að einn valdamesti maður landsins hafi óumbeðinn stigið fram og réttlætt slíka aðför að frjálsir fjölmiðlun í landinu. Hefur þá jafnframt verið bent á að Bjarni hafi í færslu sinni ekkert velt því fyrir sér hvort það væri almennt eðlilegt að lögregla beiti sér að álíka hörku í málum sem í grunninn varði meintan stuld á símtæki – en á grundvelli þess jafnræðis, sem Bjarni hafi vísað til í færslu sinni, ættu væntanlega allir Íslendingar að geta vænst þess að lögregla taki jafn fast á málum þegar þeirra símum er stolið.

Sjá einnig: Forkastanleg og lygileg orð Bjarna Benediktssonar í sjúku samfélagi segir Aðalheiður

 

Eins og málflutningur í allt öðru máli

Bjarni hefur nú brugðist við gagnrýninni. Þar bendir hann á að hann hafi í færslu sinni verið að benda á að sennilega væri full snemmt að stökkva upp á nef sér yfir yfirheyrslunum og fara mikinn út af því sem þar gæti verið spurt um. Málið væri einfaldlega til rannsóknar og ekki sé fyllilega ljóst hvað málið varði og hvaða upplýsingum lögreglan byggi rannsókn sína á.

„Ekki stóð á viðbrögðunum, en þau voru, af einhverjum sökum, að uppistöðu til eins og málflutningur í allt öðru máli en því sem ég hafði stefnt mér inn í. Hver stjórnarandstæðingurinn og blaðamaðurinn á eftir öðrum þurfti að flýta sér svo í umræðuna að það var sem viðkomandi hefði ratað á rangar dyr í dómshúsinu. Þar fór fram tilfinningaþrunginn málflutningur, t.d. um að það væri grundvallaratriði í frjálsu lýðræðissamfélagi að mega segja fréttir án afskipta stjórnvalda. Að dómafordæmi væru fyrir því að blaðamenn þyrftu ekki að gefa upp heimildarmenn og bent var á að sérlög giltu um blaðamenn í ákveðnum tilvikum.“

Bendir Bjarni á að hann hafi ekki verið að tjá sig um þau atriði. Hann hafi verið að velta því upp hvort allir væru jafnir fyrir fjölmiðlum þar sem honum hafi þótt fréttaflutningur af málinu ólíkur þeim er varði almenna borgara.

„Á þessu stigi málsins finnst mér auk þess engin innistæða fyrir uppþoti vegna boðunar í skýrslutöku, en fréttir hafa mest byggt á forsendum þeirra sem hafa réttarstöðu sakbornings í málinu, um það hvað þeir telja að til standi að spyrja þá um.“

 

Sem báðar starfa á fréttastofu Ríkisútvarpsins

Bjarni víkur svo máli sínu að sameiginlegri yfirlýsingu Blaðamannafélags Íslands og Félagi fréttamanna sem gefin var út í gær í tilefni af fyrri færslu hans.

Sjá einnigSvara spurningum Bjarna Benediktssonar – Yfirheyrslur lögreglu ný ógn við stéttina

„Ég fékk engin viðbrögð frá Ríkisútvarpinu við þessum vangaveltum og er ekki að bíða eftir þeim. Í gær birtist hins vegar svar, eða yfirlýsing, frá Blaðamannafélagi Íslands og Félagi fréttamanna, sem er stéttarfélag fréttamanna Ríkisútvarpsins. Það hefur eflaust verið fyrirhafnarlítið fyrir formennina tvo, þær Sigríði Dögg Auðunsdóttur og Sigríði Hagalín Björnsdóttur, sem báðar starfa á fréttastofu Ríkisútvarpsins, að funda hvor í sínu félaginu og senda yfirlýsinguna sameiginlega frá sér.

Sigríður Dögg hafði þá þegar tjáð sig um að það væri óskiljanlegt og alvarlegt að fréttamenn væru boðaðir í skýrslutöku og Sigríður Hagalín Björnsdóttir hafði kvöldið áður stýrt Kastljóssþætti á Ríkisútvarpinu um efnið.“

Hefur það komið fram einhvers staðar?

Telur Bjarni að áðurnefnd yfirlýsing hafi innihaldið málsvörn fyrir fjölmiðlamennina fjóra auk lögfræðilegra atriða. Þau hafi þó í engu svarað athugasemdum hans um málið. Eins furðar Bjarni sig á því að í yfirlýsingu sé því varpað fram sem staðreynd að tilgangur yfirheyrslanna sé að krefjast svara um heimildarmenn.

„Í fyrsta lagi hefur ekkert gerst annað en að einstaklingar hafa verið boðaðir í skýrslutöku og hafa þar réttarstöðu sakborninga. Hvaðan hafa félögin upplýsingar um að þessir fréttamenn verði í næstu viku krafðir svara um heimildarmenn sína? Hefur það komi fram einhvers staðar?“

Aðalsteinn í stjórn BÍ

Bjarni vekur athygli á því að formenn Blaðamannafélagsins og Félagi Fréttamanna starfi báðir á fréttastofu RÚV. Auk þess sé einn af þeim fjölmiðlamönnum, sem boðaðir hafa verið í skýrslutöku, í stjórn Blaðamannafélagsins, en það mun vera Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður Stundarinnar.

Þykir Bjarna undarlegt að þetta mál hafi takið yfir fréttaflutning síðustu daga.

„Eftir stendur að fréttamenn verða að þola að lögreglan sinni þeirri skyldu að rannsaka mál þar sem grunur er um brot á lögum. Og það skýtur skökku við að fréttamenn því sem næst yfirtaki fréttatíma með málflutning sinn. Áhorfendur horfa á fréttamenn taka viðtöl við fréttamenn um mikilvægi fréttamanna og þeirra kenningar um tilgang lögreglunnar með rannsókn máls – án þess að haldbær gögn styðji þær kenningar.“

Öruggt að fréttastofa Ríkisútvarpsins sér það

Ítrekar svo Bjarni fyrri afstöðu sína – það geti ekki talist alvarlegt að boða blaðamenn í skýrslutöku þegar rökstuddur grunur leikur á um að refsivert brot hafi verið framið.

„Þetta gildir óháð öllu því sem sagt hefur verið um rétt blaðamanna til að sinna störfum sínum, vernd heimildarmanna og fjölmiðlafrelsi.“

Meira að segja Félag fréttamanna, stéttarfélag fréttamanna á Ríkisútvarpinu og Blaðamannafélagið hljóta að sjá það.

Og ef þau sjá það, er næstum öruggt að fréttastofa Ríkisútvarpsins sér það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund

Orðið á götunni: Baktjaldamakk og hræðsla við landsfund