Við myndun núverandi ríkisstjórnar síðla hausts 2021 var ráðuneytum og ráðherrum fjölgað og er kostnaður vegna þessarra breytinga yfir 1,8 milljarðum króna. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir að þessar breytingar hafi haft þann einan tilgang að treysta valdahlutföll á milli stjórnarflokkanna og tryggja þrjá ráðherra til VG þrátt fyrir mikið fylgistap flokksins í kosningunum.
Þetta kemur fram í grein Þorbjargar í Morgunblaðinu í dag.
Þorbjörg bendir á að ríkissjóður sé nú rekinn með miklum halla og sparnaðar sér víða þörf:
„Við afgreiðslu fjárlaga í desember síðastliðnum var gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með tæplega 170 milljarða halla þetta árið. Fram undan er krefjandi tími fyrir ríkið sem og almenning. Komandi kjarasamningar í skugga verðbólgu og vaxtahækkana. Í tengslum við verðbólgu og vaxtahækkanir talar fjármálaráðherra um að það þurfi að vanda sig í opinberri fjármálagerð og áætlanagerð til næstu ára. Hann hefur minnt á að laun og launakostnaður hafi í fyrra hækkað um sjö og hálft prósent. Engu að síður komst hann að þeirri niðurstöðu eftir átta vikna stjórnarmyndunarviðræður að skynsamlegt væri að fjölga ráðuneytum og auka hraustlega við launakostnað við Stjórnarráðið en biðla kannski bara til annarra að vanda sig.“
Þorbjörg bendir á að ráðuneytum hafi verið fækkað niður í átta árið 2012 með sameiningu ráðuneyta. Þar hafi ráðið sá veruleiki að stærri ráðuneyti séu hagkvæmari stjórnsýslueiningar. Nú sé þessu snúið við með tilheyrandi kostnaði, eingöngu til að treysta valdahlutföll milli flokkanna. Engin knýjandi þörf sé að baki fjölgun ráðuneyta:
„Að baki fjölgun ráðuneyta býr auðvitað engin knýjandi þörf. Engin önnur en að fjölga ráðherrum svo valdahlutföllin milli stjórnarflokkanna haldist. Milljarðakapallinn er afleiðing þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn samþykktu að Vinstri græn héldu þremur ráðherrastólum þrátt fyrir töluvert fylgistap VG og gjaldið fyrir að langminnsti flokkurinn í samstarfinu fái samt að leiða ríkisstjórnina. Þá þurfti að jafna leikinn með því að fjölga ráðherrum. Hér þarf að segja hið augljósa: Fyrir það borgar almenningur og fyrirtækin í landinu.“
Yfirskrift og lokaorð greinar Þorbjargar eru eftirfarandi: „Hvað eru tveir milljarðar á milli vina?“