Úrslit í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík voru tilkynnt í Iðnó fyrir stundu. Fyrirfram var mest spenna fyrir því hver myndu hafna í þriðja og fjórða sætinu en þar voru margir um hituna. Alls gáfu fimmtán manns kost á sér í eitthvað af efstu sex sætunum sem kosið var um í flokksvalinu, sextán manns raunar þegar með er talinn Guðmundur Ingi Þóroddsson en kjörstjórn fulltrúaráðs flokksins komst að þeirri niðurstöðu á föstudag að framboð hans væri ekki gilt á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði kosningalaga um kjörgengi.
Nú er Samfylkingin með sjö borgarfulltrúa.
Kosið var rafrænt og var kosningakerfið opið frá því klukkan átta í gærmorgun og til klukkan þrjú í dag.
Í 1. sæti Dagur B. Eggertsson með 2.419 atkvæði í 1. sæti.
Í 2. sæti Heiða Björg Hilmisdóttir með 1.926 atkvæði í 1.- 2. sæti.
Í 3. sæti Skúli Helgason með 1.104 atkvæði í 1. – 3. sæti.
Í 4. sæti Sabine Leskopf með 910 atkvæði í 1. – 4. sæti.
Í 5. sæti Hjálmar Sveinsson með 1.122 atkvæði í 1. – 5. sæti.
Í 6. sæti Guðný Maja Riba með 1.212 atkvæði í 1.- 6. sæti.
Í næstu sætum voru Sara Björg Sigurðardóttir í 7. sæti og Ellen Jacqueline Calmon í 8. sæti.
Dagur gaf einn kost á sér í fyrsta sætið og Heiða Björg sóttist ein eftir öðru sætinu. Því var eftirvæntingin mest eftir því hverjir kæmu á eftir þeim á lista. Skúli var í þriðja sæti líka síðast en Sabine fór upp fyrir Hjálmar í röðinni, en þau fimm efstu eru sitjandi borgarfulltrúar.
Niðurstaða fyrir sex efstu sætin er bindandi fyrir uppstillingarnefnd, að teknu tilliti til reglna Samfylkingarinnar um að ekki halli á hlut kvenna.
Hér má lesa nánar um þau sem gáfu kost á sér í flokksvalinu https://xs.is/frambjodendur-i-flokksvali-i-reykjavik-2022