fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Eyjan

Algjör stefnubreyting í varnarmálum Dana – Semja um varnarsamstarf við Bandaríkin og aðgengi bandarískra hermanna að Danmörku

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 11. febrúar 2022 08:00

F-16 á flugi yfir Danmörku. Mynd:Flyvevåbnets Fototjeneste/Forsvarskommandoen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Danska ríkisstjórnin boðaði til fréttamannafundar í gær þar sem tilkynnt var um algjöra stefnubreytingu í varnarmálum Danmerkur. Danir eru meðlimir í NATO en hafa ekki samið beint við aðrar þjóðir um varnarmál. En nú verður breyting á miðað við það sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra, sagði á fundinum. Hún sagði að fljótlega hefjist samningaviðræður við Bandaríkin um varnarsamstarf.

Með þessu verður opnað á að bandarískir hermenn verði staðsettir í Danmörku og stundi æfingar þar. Einnig mun þetta opna fyrir að bandarísk hergögn verði geymd í Danmörku. Ekki er þó um að ræða að Bandaríkin komi sér upp herstöð. Líklegt má telja að um svipaðan samning verði að ræða og Norðmenn hafa gert við Bandaríkin.

Frederiksen sagði að með nánara samstarfi ríkjanna muni Bandaríkin fá enn betri möguleika til að vera með herlið í Evrópu og um leið muni þetta styrkja þátttöku þeirra í öryggismálum Evrópu, þátttöku sem skipti gríðarlegu máli og gildi það einnig um öryggi Danmerkur. „Þetta getur þýtt að bandarískir hermenn verða á danskri grundu, hernaðargögn og tæki. Bæði um skamman og langan tíma,“ sagði Frederiksen.

Hún lagði áherslu á að undirbúningsviðræður hafi staðið yfir í um eitt ár við stjórn Joe Biden, Bandaríkjaforseta, og að samningaviðræðurnar tengist því ekki beint spennunni á milli Rússlands og Úkraínu. Hún sagði að framferði Rússa að undanförnu hafi þó átt þátt í að Danir vilji nú standa enn þéttar við hlið Bandaríkjanna.

Fulltrúum dönsku þingflokkanna var tilkynnt um þessi áform ríkisstjórnar á sérstökum fundi utanríkismálanefndar rétt fyrir fréttamannafundinn.

Á síðasta ári sömdu Bandaríkin og Noregur um varnarsamstarf en samkvæmt því fá Bandaríkjamenn aðgang að norskum herstöðvum og þeir geta tekið eigin búnað með til landsins án þess að Norðmenn fái nákvæmlega að vita hvaða búnað er um að ræða. Samningurinn veitir Bandaríkjamönnum einnig rúmar heimildir til hernaðarumsvifa í Noregi og hernaðaraðgerða. Eystrasaltsríkin eru með svipaða samninga við Bandaríkin.

Óhætt er að segja að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé algjör kúvending á 70 ára gamalli stefnu Dana um að heimila ekki erlendum ríkjum að staðsetja hermenn í landinu. Ríkisstjórnin tók af allan vafa á fréttamannafundinum og sagði að ekki væri til umræðu að kjarnorkuvopn yrðu geymd í Danmörku og herskip, búin kjarnavopnum, fá heldur ekki að koma í danskar hafnir.

Samningaviðræðurnar munu ekki ná til Færeyja og Grænlands að sögn Frederiksen.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fer ekki neitt í sumar
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Hanna Katrín: Verðum að koma okkur upp úr þessum hjólförum

Hanna Katrín: Verðum að koma okkur upp úr þessum hjólförum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lýsa alvarlegum áhyggjum af stöðu bæjarsjóðs – Gífurleg útgjöld til hælisleitenda og valdeflingarverkefni falin í ársreikningi

Lýsa alvarlegum áhyggjum af stöðu bæjarsjóðs – Gífurleg útgjöld til hælisleitenda og valdeflingarverkefni falin í ársreikningi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðmundur Ingi Kristinsson: Samræmd próf eru tímaskekkja – fátækt má ekki hindra aðgang að námi

Guðmundur Ingi Kristinsson: Samræmd próf eru tímaskekkja – fátækt má ekki hindra aðgang að námi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn hleypur í skarð Pírata

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn hleypur í skarð Pírata
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Varpar sprengju í nýrri bók – Obama vildi stöðva Kamala Harris

Varpar sprengju í nýrri bók – Obama vildi stöðva Kamala Harris