Fréttablaðið skýrir frá þessu en það var Prósent sem gerði könnunina. Fram kemur að af þeim sem tóku afstöðu sögðust 20% vera mjög eða frekar hlynnt kvótakerfinu en 61% sögðust vera frekar eða mjög andvíg því.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagðist hafa séð svona spurningar og niðurstöður áður og því komi þetta henni ekki á óvart. Hún sagði erfitt að draga ályktanir af þessu því fólk geti verið með margar og misjafnar skoðanir á hvernig sé hægt að breyta núverandi kerfi.
Hún sagði að markmiðið með kvótakerfinu hafi verið að tryggja umhverfislega, efnahagslega og samfélagslega sjálfbærni. Leiðin hafi verið löng og erfið en þjóðinni hafi tekist þetta. „Mér er því til efs að sá hópur sem segist andvígur kvótakerfinu hafi, þegar betur er að gáð, vilja til þess að hverfa af braut og taka upp eitthvert annað kerfi, jafnvel með óljósu markmiði og ófyrirséðum afleiðingum,“ sagði hún.