„Það eru margir skuggar og mörg skúmaskot innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar er valdabarátta og þar er hatur. Svo mikið hatur gagnvart ákveðnum röddum og skoðunum að það gæti hæglega flokkast sem ofbeldi,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í grein á Vísi í dag.
Ragnar segir að innan ASÍ sé að finna valdamikinn hóp skuggafólks sem látið lítið fyrir sér fara en stundi undirróður. Þessi öfl hatist við hann fyrir að hann skuli hafa riðlað völdum í forystu verkalýðshreyfingarinnar með því að sigra í formannskjöri hjá VR. Gerir hann því skóna að miklar áhyggjur af starfsanda innan skrifstofu Eflingar snúist í raun um annað, um valdabaráttu innan verkalýðshreyfingarinnar, um áhyggjur af því að völd innan hreyfingarinnar riðlist. Skuggahópurinn beiti skefjalausu ofbeldi og skýrslum um starfsánægju innan ASÍ sé stungið undir stól á meðan viðruð sé óánægja starfsmanna á skrifstofu Eflingar.
„Ég hafði heyrt að ASÍ skrapaði botninn í mælingum á trausti í íslensku samfélagi en átti bágt með að trúa að fólk væri tilbúið að reka stefnu í svo mikilli óþökk almennra félagsmanna. Síðar reyndist það rétt að samkvæmt árlegum könnunum skrapaði ASÍ botninn í trausti og gerði árum saman. Þessum skýrslum var iðullega stungið undir stól og forystan neitaði að gera opinbera þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. En svona vinnur hreyfingin,“ segir Ragnar í grein sinni.
Ragnar segir að hópurinn stundi undirróður gegn félögum sínum með lymskufullum hætti:
„Og af hverju vitum við lítið um þennan hóp? Því þetta fólk tekur sjaldan eða aldrei slaginn á opinberum vettvangi eða lætur nokkuð í sér heyra, nema þá helst til að níða skóinn af félögum sínum eða tala niður verk þeirra og árangur.
…„Þetta er yfirleitt fólk sem leggur ekki mannorð sitt að veði á opinberum vettvangi og tekur slaginn við sérhagsmunaöflin. Nei það er meira í því að setja like, deila og taka undir níðskrif um fólk sem því er illa við eða stendur ógn af eins og Sólveigu og hennar framboði, og hennar baráttu almennt.“
Ragnar segir hópinn fullan af hatri:
„En af hverju þetta grímulausa hatur? Munu þau aldrei fyrirgefa okkur þann glæp að riðla völdum innan hreyfingarinnar? Þrátt fyrir lýðræðislegt kjör og umboð?“
Ragnar segir verkalýðshreyfinguna uppfulla af ógeðfelldri pólitík og sá möguleiki hafi verið ræddur að VR fari út úr ASÍ:
„Það er ekki að ástæðulausu að stjórn og trúnaðarráð VR hefur lengi rætt þann möguleika að stíga út úr þessu eitraða umhverfi Alþýðusambandsins. Við erum með stærsta félagið og til samanburðar er VR helmingi fjölmennara en BSRB. Ég mun gera grein fyrir því síðar hvernig rödd og áherslur VR hafa verið hundsaðar innan veggja ASÍ.“